Körfubolti

Áhorfandi nældi í tæknivillu á þjálfara Stjörnunnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gunnlaugur Briem gefur Arnari tæknivillu við litla hrifningu þess síðarnefnda.
Gunnlaugur Briem gefur Arnari tæknivillu við litla hrifningu þess síðarnefnda. Stöð 2 Sport

Skondið atvik átti sér stað í leik Stjörnunnar og Þórs frá Akureyri sem fram fór í Garðabænum síðastliðinn fimmtudag þegar áhorfandi varð þess valdandi að þjálfari Stjörnunnar fékk tæknivillu.

„Það var það mikil stemning í húsinu að áhorfendur fengu tæknivillu,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, stjórnandi Subway Körfuboltakvölds í upphafi innslagsins.

Seint í þriðja leikhluta fóru Þórsarar í sókn og Bouna Ndiaye reyndi þriggja stiga skot. Í þann mund sem hann lét vaða kallaði áhorfandi úr stúkunni fyrir ofan varmannabekk Stjörnunnar til þess að reyna að trufla skotið.

Gunnlaugur Briem, dómari leiksins, hélt þó að Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, hefði gefið frá sér hljóðið. Ekki er leyfilegt að trufla skot andstæðingsins með þessum hætti og Gunnlaugur gaf Arnari því tæknivillu.

Eins og gefur að skilja var Arnar allt annað en sáttur við dóminn og lét vel í sér heyra.

Eftir að hafa ráðfært sig við hina dómara leiksins áttaði Gunnlaugur sig á því að hann hafði gert mistök og bað Arnar afsökunar og tók tæknivilluna til baka, en þetta skondna atvik má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Subway Körfuboltakvöld: Áhorfandi fær tæknivillu

Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×