Skoðun

Fram­farir í Garða­bær byggja á ný­sköpun

Stella Stefánsdóttir skrifar

Ég hef skýra framtíðarsýn fyrir Garðabæ. Hún byggir á traustum fjárhag og nýsköpun í þjónustu og rekstri – sem kristallast í framsækinni þjónustu, velsæld íbúa á öllum aldri og fjölbreyttum lífsgæðum í nærumhverfinu.

Mikilvægi nýsköpunar er óumdeilt og þarf að gera hátt undir höfði. Sveitarfélög þurfa líkt og aðrir að huga að nýsköpun í rekstri og þjónustu. Ég tel að nýsköpun ásamt traustum fjárhag séu lykilforsendur framfara í Garðabæ.

Sveitarfélagið Garðabær hefur verið framsækið og leiðandi á ýmsum sviðum, en það er alltaf hægt að gera betur. Það þarf að hvetja til og styðja nýsköpun í rekstri og þjónustu á vegum sveitarfélagsins. Ekki aðeins í átaksverkefnum heldur þarf að skapa nýsköpunarmenningu og hvatningu í stjórnsýslunni. Nýsköpun getur ýtt undir framsækna þjónustu, aukið skilvirkni og bætt lausnir í stjórnsýslu, stutt við betri nýtingu skattfjár, velsæld íbúa og lífsgæði í nærumhverfinu. Samstarf um nýsköpun skilar oft hraðari ávinningi og skoða þarf tækifæri um samstarf með opnum huga. Skýrt dæmi um samstarf um nýsköpun er t.d. samstarfsverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélaga um starfræna umbreytingu sveitarfélaga sem er komin vel á veg.

Það eru fjölmörg ónýtt tækifæri til að beita hugmyndafræði nýsköpunar hjá sveitarfélaginu, Garðabæ. Nýsköpun er mikilvæg til að leita nýrra leiða í velferðaþjónustu sem leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir sem auka vitund fólks um ábyrgð á eigin heilsu og umgjörð sem veitir öryggi í eigin búsetu. Nýsköpun getur stutt við framsækna þjónustu sveitarfélagsins með stuttum og skilvirkum boðleiðum í samskiptum og samtali. Nýsköpun getur ýtt undir framfarir í skólastarfi. Bæði til hagræðingar og umbóta í skólastarfi til að mæta þörfum framtíðarinnar og með innleiðingu nýsköpunar í námsefnið. Samstarf um nýsköpun gæti einnig stutt við framfarir í skipulagsmálum og við hönnun skóla, íþróttamannvirkja og opinna svæða. Þá getur nýsköpun stutt við þróun grænna lausna.

Ýmsar áskoranir felast í ört vaxandi sveitarfélagi. Tryggja þarf framsýni og fyrirsjáanleika við uppbyggingu og aðlögun grunnþjónustu í nýjum og vaxandi hverfum. Skýrir nýsköpunarferlar geta stytt viðbragðstíma þegar bregðast þarf við breyttum aðstæðum.

Höfundur er varabæjarfulltrúi og gefur kost á sér í 3-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ.




Skoðun

Sjá meira


×