Þetta kemur fram í tilkynningu frá HMS.
Þar segir að á síðustu árum hafi hættan á gróðureldum aukist talsvert vegna vaxandi gróðursældar og veðurfarsbreytinga. Ætla megi að gróðureldar séu orðnir stór áhættuþáttur í náttúru Íslands enda geti þeir valdið miklu eigna- og manntjóni og skaðað innviði.

Í tilkynningunni er stuttlega fjallað um gróðurelda síðasta árs en þrátt fyrir viðvaranir til fólks um að fara varlega með eld í aðdraganda áramóta bárust viðbragðsaðilum 84 útköll á innan við sólarhring.
„Í ljósi atburða um áramótin áréttar starfshópurinn mikilvægi þess að stjórnvöld beiti sér fyrir því að tryggja slökkviliðum og Landhelgisgæslunni aðgengi að slökkviskjólum sem lykilbúnað til að takast á við gróðurelda hvar sem er á landinu. Í dag er einungis til ein slökkviskjóla sem keypt var frá Kanada í fyrra þegar eldri skjólan eyðilagðist við slökkvistörf í Heiðmörk sl. vor og hefði því lítið mátt út af bregða svo illa færi,“ segir í tilkynningunni.
„Að mati starfshópsins og miðað við fyrirliggjandi gögn um aukna gróðureldahættu hér á landi er nokkuð ljóst að efla þarf viðbúnað við gróðureldum með því að tryggja aðgengi að fleiri en einni slökkviskjólu svo viðbragsaðilar séu í stakk búnir að bregðast við gróðureldavánni.“