Umfjöllun og viðtöl: KA - Haukar 28-26 | KA-menn í undanúrslit

Árni Gísli Magnússon skrifar
Jónatan Magnússon hrósaði sigri í kvöld.
Jónatan Magnússon hrósaði sigri í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

KA er komið í undanúrslit Coca-Cola bikarsins eftir frækinn sigur gegn Haukum í KA-heimilinu. KA var betri aðilinn allan leikinn en náðu þó aldrei að slíta Haukana almennilega frá sér. Eftir æsispennandi lokamínútur hafði KA tveggja marka sigur, 28-26.

Ljóst var strax frá byrjun að leikurinn í dag yrði frábær skemmtun en stemmingin á pöllunum var orðin gríðarleg töluvert fyrir leik og ljóst að fólk er farið að fjölmenna í stúkuna eftir að takmörkunum var létt.

Mikill hraði var í byrjun og skiptust liðin á að skora en KA menn breyttu stöðunni úr 7-7 í 11-7 á örstuttum kafla þegar um 20 mínútur voru búnar. Haukar voru á þessum tíma að tapa boltanum klaufalega og KA nýtti sér það með hraðaupphlaupsmörkum með Óðinn Þór fremstan í flokki. Þá var Bruno Bernat í marki KA stórkostlegur og var með 13 varða bolta í fyrri hálfleik.

Haukar rönkuðu þó við sér og var staðan 12-11 heimamönnum í vil þegar rúmar 3 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Þá fór KA vörnin í lás og þeir fengu auðveld mörk í staðinn og skoruðu fjögur síðustu mörk hálfleiksins og staðan í hálfleik því vænleg fyrir heimamenn, 15-11.

KA byrjaði seinni hálfleikinn af sama krafi og þeir enduðu þann fyrri og skoruðu fyrstu tvö mörkin og því komnir 17-11 yfir. Haukar tóku þá aðeins við sér og fóru að fá auðveldari mörk og breyttu stöðunni í 19-17 fljótlega.

Bruno Bernat var gjörsamlega frábær í marki KA og varði hvert dauðafærið á fætur öðru ásamt því að fá mikla hjálp frá félögum sínum í varnarleiknum þar sem að Ragnar Snær Njálsson og Ólafur Gústafsson létu heldur betur finna fyrir sér í miðjublokkinni með hjálp frá fleirum. KA menn voru einnig að spila góðar sóknir og voru þeir þremur til fjórum mörkum yfir nær allan seinni hálfleikinn.

Þegar ein og hálf mínúta lifði leiks tók Jónatan Magnússon, þjálfari KA, leikhlé. Staðan þá 27-25 fyrir KA og ein og hálf mínúta eftir. KA menn missa boltann og Haukar fá hraðaupphlaup en Bruno markvörður KA, sem er að hlaupa inn á völlinn eftir að KA var í 7 á 6, nær á einhvern ótrúlegan hátt að stökkva fyrir skot Brynjólfs Snæs á markteig og ver skotið. KA menn fara upp en missa boltann og Haukar fá snöggt mark og munurinn því einungis eitt mark og rúm hálf mínúta eftir. KA menn fara í sókn og fiska víti sem Óðinn Þór skoraði úr og tryggði heimamönnum 28-26 sigur og þar með farseðil í höllina í úrslitahelgi bikarsins.

Af hverju vann KA?

Sturlaður varnarleikur og frábær markvarsla var lykllinn að sigri í dag. Áhorfendur spila þó alveg jafn mikinn hluta í dag þar sem að stemmingin var tryllt í húsinu allan liðlangan leikinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Í vörninni hjá KA var Ólafur Gústafsson með 9 lögleg stopp, Einar Birgir 8, Ragnar Snær 6 og Arnar Freyr 5 sem segir ýmislegt um varnarleik liðsins í dag. Þeir stóðu upp úr ásamt Óðni Þór Ríkharðssyni sem skoraði 10 mörk úr 13 skotum í öllum regnbogans litum, þar af tvö mörk úr hraðaupphlaupum þar sem hann skaut boltanum aftur fyrir bak og í netið.

Allan Nordberg leysti hægri skyttustöðuna þar sem Einar Rafn er meiddur og var flottur með 6 mörk úr 7 skotum.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Hauka gekk ekkert sérstaklega vel í dag, enda ekkert grín að mæta KA vörninni í þessum ham. Þeir voru líka að tapa boltanum klaufalega oft á tíðum þar sem sóknarleikurinn virkaði ekki nógu agaður.

Hvað gerist næst?

KA er komið í undanúrslit bikarsins og taka þar með þátt í úrslitahelginni sem fram fer þann 9-13. mars á Ásvöllum.

Næsti leikur þeirra er frestaður heimaleikur við ÍBV sem fram fer miðvikudaginn 23. febrúar kl. 18:00.

Haukar eru dottnir út úr bikarnum þetta árið en næsti deildarleikur þeirra er heimaleikur við Gróttu sunnudaginn 27. febrúar kl. 18:00.

Jónatan: Ef að við fáum svona varnarleik og svona áhorfendur þá er ekkert gaman að koma í KA-heimilið

KA er komið áfram í undanúrslit Coca-Cola bikarsins eftir glæstan sigur gegn Haukum í KA-hemilinu. KA var betri aðilinn allan leikinn og var vörn og markvarsla liðsins algjörlega frábær. Lokatölur urðu 28-26 eftir æsispennandi lokamínútur þar sem Haukar náðu að minnka muninn niður í eitt mark þegar innan við mínúta lifði leiks.

Jóntan Magnússon, þjálfari KA, var kampakátur í leikslok og kvaðst einkar stolur af liði sínu.

„Hrikalega stoltur af liðinu í dag. Við þurftum ansi góða frammistöðu og vissum það fyrir fram til þess að vinna Haukana. Við vorum ansi nálægt því með vörnina og markvörsluna að eiga hinn fullkomna leik því að varnarleikurinn í þessum leik var stórkostlegur og það er það sem ég er ánægðastur með og núna í fyrsta skipti í langan tíma að komast í Höllina þessa leiki sem okkur langar í þannig það eru svona fyrstu viðbrögðin mín að ég er mjög stoltur.”

Varnarleikurinn var frábær hjá KA í dag með Ólaf Gústafsson og Ragnar Snæ Njálsson í miðjublokkinni. Þar fyrir aftan varði Bruno Bernat 18 bolta og endaði með 42% markvörslu. Jóntan segir alla leikmenn sína hafa átt þátt í þessum varnarleik.

„Það er bara mjög gaman að horfa á þetta, við erum að spila frábæra vörn með Ragga og Óla en Arnar Freyr og Einar Birgir voru frábærir líka. Til þess að vinna Haukana þá þarf svona og nú erum við búnir að spila þrjá leiki núna eftir áramót þar sem varnarframmistaðan hefur verið góð en svo þarf maður að horfa á þetta, mér fannst við eiga meira inni og fannst við ekki þurfa að hafa þetta svona spennandi en ef að við fáum svona varnarleik og svona áhorfendur þá er ekkert gaman að koma í KA-heimilið en nú er stutt í næsta leik sem er ÍBV á miðvikudaginn þannig við njótum þess núna að vera hátt uppi og ánægðir með okkur en svo þurfum við að kúpla okkur núna í deildina og tengja næsta leik við þennan.”

KA var þremur mörkum yfir lungan af seinni hálfleik en Haukar náðu að minnka muninn niður í eitt mark þegar minna en mínúta var eftir. Var Jónatan ekki orðinn stressaður á þessum tímapunkti?

„Ég reyndar var ekki stressaður, mér leið vel af því að Haukarnir voru í erfiðleikum með að skora en auðvitað var maður pínu hræddur að þeir myndu fara í auðveld mörk. Við fórum aðeins í 7 á 6 og fengum nokkur mörk út úr því og kannski hefði ég átt að halda því aðeins lengur. Í þessum leik fannst mér við eiga skilið sigur, við vorum betri en Haukar í dag.”

Stemmingin í KA-heimilinu var gjörsamlega frábær í dag og hávaðinn var slíkur en varla heyrðist manna á milli. Jónatan var sammála því og segir að þetta sé stemmingin sem öll lið séu að leita að í dag eftir erfiða tíma.

„Nú ætla ég ekkert að vera dramatískur eða neitt en áhorfendurnir í dag eru svona það sem allir eru að sækjast eftir að ná í, við erum náttúrulega með okkar leikmenn og leikmenn sem eru að koma til okkar og þetta er það sem við brennum fyrir að gera og í dag var þetta ógeðslega gaman. Nú er ég að einbeita mér að því að ná menn í fókus fyrir næsta verkefni en það verður vonandi gaman á miðvikudaginn líka ef við höldum svona áfram”, sagði Jónatan að lokum.

Aron Kristjánsson.VÍSIR/BÁRA

Aron: Vorum að klúðra mikið af dauðafærum og mikið af tæknifeilum

„Þetta er auðvitað bara gríðarlega svekkjandi. Mér finnst við vera búnir að spila vel sóknarlega eftir áramót en í dag vorum við ekki nægilega beittir, vorum að klúðra mikið af dauðafærum og mikið af tæknifeilum”, sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, þegar ljóst var að lið hans væri dottið út úr bikarnum þetta árið.

KA spilaði mjög aggressíva vörn sem gerði Haukum erfitt fyrir sóknarlega og fannst Aron hans menn ekki finna nægilega mikið af lausnum við því.

„Hann var líka að verja gríðarlega vel í markinu og það voru bæði góð skotfæri fyrir utan, það voru dauðafæri, hraðaupphlaup þannig að það gerir það að verkum að menn verða aðeins þvingaðir í spili og gerðum líka aðeins af tæknifeilum. Í seinni hálfleik eru við að spila góðan varnarleik, markvarslan kemur líka upp á köflum og KA átti í miklum erfiðleikum með að skora hjá okkur en að sama skapi vorum við að fara illa þá með viss tækifæri að koma okkur yfir í leiknum en svona er þetta, KA er sterkt lið og heimavöllur og svona.

Aroni fannst sóknarleikurinn batna í seinni hálfleik en þó aldrei ná almennilegu flugi.

„Við vorum ekki að spila vel sóknarlega í dag, svolítið þungt, og í fyrri hálfleik vantaði svolítið meira flot á boltann og á móti var hann að verja vel úr ágætis færum og þá varð þetta dálítið þvingað. Í seinni hálfleik fannst mér sóknarleikurinn verða betri en samt ekki nægilega góður en mér fannst hann taka of mikið af dauðafærum.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira