Jakob Ellemann-Jenssen, formaður stjórnmálaflokksins Venstre, lagði það til í ræðu sem hann hélt á samstöðufundi með Úkraínu fyrir framan Rússneska sendiráðið í Kaupmannahöfn á sunnudag, að endurnefna ætti götuna sem sendiráðið stendur við.
Gatan heitir nú Kristianiagade og er nefnd eftir höfuðborg Norðmanna Ósló, sem áður hét Kristjanía. Ellemann-Jenssen hefur þó lagt það til að gatan verði endurnefnd Ukrainegade, eða Úkraínugata, sem gæti komið Rússum illa, enda heyja þeir nú stríð við Úkraínumenn.
Line Barfod, einn borgarstjóri Kaupmannahafnar sem sér um skipulagsmál og tækni, sagði í gær að breytingin komi vel til greina og mun hún hafa málið til skoðunar.
„Mér finnst tillagan liggja í augum uppi, við verðum að sýna andstöðu okkar við þessa hræðilegu og tilgangslausu innrás Rússa,“ sagði Barfod í yfirlýsingu.
Tryggja verði þó að hennar sögn að íbúar í götunni séu sáttir með breytinguna og hún verði gerð samkvæmt settum lögum.
Rússneska sendiráðið í Kaupmannahöfn hefur nú lýst því yfir að það hafi miklar áhyggjur af áhrifunum sem breytingarnar gætu haft á samskipti Danmerkur og Noregs.
„Nafn götunnar er táknmynd sögulegra tenginga og góðra samskipta Noregs og Danmerkur,“ segir í tísti sendiráðsins.
📌 Referring to the ongoing discussion, the Russian Embassy would like to remind, that Kristianiagade bears the former name of Norway’s capital city and symbolizes historical bonds and good relationships between Denmark and Norway.
— Embassy of Russia, DK (@RusEmbDK) March 1, 2022