Innlent

Segir vorið komið en það þurfi sinn tíma til að fæðast

Vésteinn Örn Pétursson og Óttar Kolbeinsson Proppé skrifa
Fréttastofa ræddi vorið við Sigga storm í Nauthólsvík.
Fréttastofa ræddi vorið við Sigga storm í Nauthólsvík. Vísir

Blautasti marsmánuður sögunnar í Reykjavík er nú senn á enda. Veðurfræðingur segir að vætutíðinni sé svo gott sem lokið, en úrkomumet var slegið í mánuðinum í höfuðborginni.

„Ég er búinn að rýna aðeins yfir sviðið og lægðirnar sem nú eru í fæðingu og eru að koma á næstu tólf, fimmtán dögum eru betri. Það er miklu minna vatnsveður í þeim. Það er reyndar ekkert allt of hlýtt, sérstaklega eftir helgina, en heilt yfir séð þá erum við með yfir frostmarki að deginum en næturfrostin eru enn þá inni,“ segir Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur, eða Siggi stormur eins og hann er gjarnan kallaður.

Hann ræddi við fréttastofu í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld, frá ströndinni í Nauthólsvík. Hann segir fólk ekki mega gleyma því að vorið þurfi að fá sinn tíma til að „fæðast.“

Er það að koma samt, vorið?

„Það er bara komið. Sjáðu fólkið bakvið mig. Það er að njóta vorblíðunnar hér í Nauthólsvík. Það er bara þannig að vorið er á þeim stað núna að barnið er ekki fætt, en er í sjúkrabílnum og móðirin með og pabbinn líka. Hríðarnar eru komnar, og svo þarf að gefa þessu séns,“ sagði Siggi.

Aðspurður hvort hægt væri að treysta veðurfræðingum fór Siggi með uppáhalds veðurspá sína:

„Á vesturhimni, vísir þykjast sjá, að verði jafnvel þurrt ef ekki rignir. Um veðurhorfur vont er nú að spá, ég held hann verði hvass ef ekki lygnir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×