„Við hjá sveitarfélögunum höfum lengi kallað eftir samtali, og höfum verið í samtali, við ríkið um þessa þjónustu. Börn með sambærilegan vanda voru að fara inn á meðferðarheimili ríkisins hér áður en síðustu tíu árin eða svo hefur ríkið verið að loka þessum meðferðarheimilum eitt af öðru, Torfastöðum, Hvítárbakka og fleirum. Þar af leiðandi hefur þjónustan færst yfrir á sveitarfélögin,” segir Rannveig.
Líkt og greint var frá í gær rannsakar lögregla nú alvarlega líkamsárás á hendur starfsmanni Vinakots í Hafnarfirði, búsetuúrræðis fyrir börn og ungmenni með fjölþættan vanda. Vinakot sendi frá sér yfirlýsingu þar sem segir að ítrekað hafi verið kallað eftir öryggisvistun fyrir skjólstæðinginn en að sveitarfélagið telji sig ekki hafa burði til að koma upp slíkri vistun.
Rannveig segir að fæst sveitarfélög hafi bolmagn til að sinna slíkri þjónustu. „Við erum að tala um einstaklinga sem eru með krefjandi og fjölþættan vanda og í mjög viðkvæmri stöðu. Það er ekki sveitarfélaga að sinna slíkri þjónustu,” segir hún.
„Það er samdóma álit sveitarfélaganna, og ég veit ekki betur en að fulltrúar ríkisins taki undir það, að þetta er þjónusta sem á heima hjá ríki og það ætti að ræða við sveitarfélögin um þessa þjónustu og hver henni er best fyrir komið.”