Logi nýtti tækifærið sem gafst í óundirbúnum fyrirspurnartíma til að spyrja Bjarna út í ástandið á bráðamóttöku Landspítalans. Vísaði hann þar í fréttir undanfarna vikna um að staðan þar væri sérstaklega þung.
Vísaði hann í viðtal við hjúkrunarfræðinginn Soffíu Steingrímsdóttur sem sagði upp störfum á bráðamóttökunni á dögunum vegna langvarandi álags.
Í ræðustól Alþingis vísaði Logi einnig í umsögn Landspítalans við Fjármálaáætlun 2023-2027, þar sem forsvarsmenn spítalans vöktu athygli á því að miðað við áætlaða heildarhækkun fjárveitinga, á bilinu 1,0 prósent til 2,0 prósent, myndi spítalinn eiga í miklum áskorunum með að mæta þeim áskorunum sem hann stendur frammi fyrir, líkt og það er orðað í umsögninni.
„Þess vegna langar mig að spyrja hæstvirtan fjármálaráðherra hvort að það sé ekki full ástæða til þess að endurskoða fjármálaáætlun í ljósi þess neyðarástands sem ríkir á bráðamóttöku Landsspítalans og ætla spítalanum meira fé,“ spurði Logi.
Ekki svo einfalt mál
„Því er haldið fram hér að með því að láta Landspítalann fá aukið fjármagn þá leysist öll okkar vandamál. Ég held að málið sé því miður ekki svo einfalt,“ svaraði Bjarni.
Sagði Bjarni að ekki væri hægt að leysa ástandið á bráðamóttökunni nema með að bæta mönnun og tryggja það að fólk sem ætti ekki að liggja þar inni, fengi rými annars staðar. Mönnunarvandinn yrði hins vegar ekki leystur með auknum fjármunum.
Ýmislegt hafi verið gert til að reyna að fjölga rýmum annars staðar í kerfinu, en erfiðlega hafi reynst að manna þau.
„Þannig að fjármagnið hefur verið til staðar en okkur hefur ekki tekist að fá fólk til að sinna plássunum.“
Sakaði hann Loga um að reyna að fella pólitískar keilur með fyrirspurninni.
„Það er eflaust í pólitískum tilgangi dálítið freistandi að koma með þessa einföldu mynd, spyrja fjármálaráðherrann: Geturðu ekki bara mokað peningum í vandann og þá hverfur vandamálið? En það er því miður ekki svona,“ sagði Bjarni.
„Það hefur alls ekki skort fjármagnið. Það er víða annars staðar þar sem við þurfum að ráðast að rót vandans.“