Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Tilkynnt var um slys þar sem keyrt hafði verið á ungmenni á rafmagnshlaupahjólum í miðbænum. Voru tvær fimmtán ára stúlkur fluttar til aðhlynningar eftir að keyrt var á þær.
Einnig var tilkynnt um að ökumaður í Garðabæ hafi verið að bakka bíl sínum þegar sex ára barn á hjóli kom í hlið bílsins. Ökumaðurinn þekkti til drengsins og hlúði að honum áður en hann fór með barnið til foreldra sinna.
Rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi var lögreglu tilkynnt um þjófnað í verslun í Kópavogi. Karlmaður í annarlegu ástandi hafði mætt þangað, tekið tvær samlokur og borðað þær fyrir framan starfsfólk verslunarinnar. Hann gat ekki borgað og sagðist ætla að koma á morgun og greiða fyrir samlokurnar.
Tilkynnt var um slys í Árbænum í gærkvöldi þar sem maður festi hendi sína milli tjakks og bifreiðar. Hann hafði verið að skipta um dekk á bifreið sinni og þurfti áhöfn sjúkrabifreiðar að losa höndina.