Samkvæmt nýjustu tölum Fiskistofu í morgun er búið að veiða 65,4 prósent strandveiðikvótans í þorski en 68,8 prósent heildarpotts allra fisktegunda.
„Að óbreyttu munu veiðar stöðvast um 20. júlí,“ segir í bréfi til ráðherrans, sem þeir Halldór Stefánsson, formaður Fonts á Þórshöfn, Guðlaugur Birgisson á Djúpavogi, formaður Félags smábátaeigenda á Austurlandi, og Andri Viðar Víglundsson, formaður Kletts á Ólafsfirði, rita undir og taka þeir fram að það sé með stuðningi allra svæðisfélaga Landssambands smábátaeigenda.

Í bréfinu segja þeir veiðikerfi takmarkað með 11.100 tonnum, í þorski, ufsa og karfa, ekkert eiga skylt við það 48 daga kerfi sem lagt var upp með þegar Alþingi í apríl 2018 samþykkti breytingar á kerfinu.
„Þar sem fiskgengd á veiðisvæðunum fjórum er mjög misjöfn á tímabilinu maí til ágúst bitnar aðferðarfræðin harðast á svæði C,“ segja bréfritarar en það svæði nær yfir Norðausturland og Austfirði.
„Þar er hálfgerð ördeyða í maí og júní, en í júlí og ágúst er genginn fiskur á miðin úti fyrir NA- og Austurlandi. Róðrar á fyrri hluta tímabilsins gefa því lítið í aðra hönd,“ og segja þessar aðstæður óboðlegar með öllu.

„Til að gæta jafnræðis milli veiðisvæða verður að tryggja strandveiðar í 48 daga út allt tímabilið. Á öllum svæðunum eru brothættar byggðir. Þær eiga það sameiginlegt að vera háðar strandveiðum, treysta á þær og mega ekki við skerðingu á sókn rúmlega 650 báta sem veiðarnar stunda.
Meðan strandveiðar eru ekki tryggðar í 48 daga sjá menn sig í auknum mæli knúna til þess að færa báta sína frá sinni heimabyggð yfir á svæði A til þess að hafa í sig og á,“ segir ennfremur í bréfinu en svæði A nær yfir Breiðafjörð og Vestfirði, frá sunnanverðu Snæfellsnesi og að Strandabyggð.

Samkvæmt nýjasta yfirliti Fiskistofu í morgun eru 698 bátar komnir með strandveiðileyfi þetta sumarið, þar af eru 672 búnir að landa afla. Nærri helmingur bátanna, eða um 48 prósent, er skráður á svæði A.
Hlutdeild svæðis A í heildarafla til þessa er þó mun hærri, eða 56 prósent. Veiðin á svæði A er komin upp í 4.144 tonn af 7.422 tonna heildarafla strandveiðibáta yfir landið.
Formaður Landssambands smábátaeigenda, Arthur Bogason, ræddi málið í fréttum Stöðvar 2 í síðustu viku: