Síldarvinnslan í Neskaupsstað tilkynnti um kaup á öllu hlutafé í sjávarútvegsfyrirtækinu Vísi í Grindavík á sunnudag Kaupverðið er tuttugu milljarðar króna og yfirtekin lán ellefu milljarðar króna.
Sex afkomendur útvegshjóna sem stofnuðu Vísi í Grindavík fá með sölunni alls tuttugu milljarða í sinn hlut sem skiptist í reiðufé að upphæð sex milljarða króna og hlutabréf í Síldarvinnslunni fyrir alls 8 prósent. Hópurinn verður með sameiningunni fimmti stærsti hluthafi í Síldarvinnslunni.
Síldarvinnslan fer mögulega yfir kvótaviðmið í einhverjum tegundum með kaupunum og útilokaði forstjóri fyrirtækisins ekki í gær að einhverjar aflaheimildir yrðu seldar þess vegna. Þá á Samherji þriðjung í Síldarvinnslunni. Kaupin hafa því einnig áhrif á úthlutaðan kvóta hjá því fyrirtæki. Samkvæmt núverandi löggjöf má eitt sjávarútvegsfyrirtæki ekki fara yfir ákveðna stærð aflaheimilda sem er 12 prósent í flestum tilvikum.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur áhyggjur af samþjöppun í greininni.
„Já ég hef áhyggjur. Það liggur fyrir að þessi samruni mun verða til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu og það mun koma í ljós hver niðurstaða þeirra skoðunar verður. Þá hefur Fiskistofa til skoðunar kvótaþakið. Síðan liggur fyrir að það er full þörf á að skoða reglurnar um hámarkið á kvótanum og ekki síst hvernig tengdir aðilar eru skilgreindir. Ég veit að matvælaráðherra hefur þetta til skoðunar í þeirri endurskoðun sem nú stendur yfir,“ segir Katrín.
Katrín segir gríðarlegan auð hafa safnast á fárra manna hendur fyrir tilstuðlan kvótakerfisins. Á meðan sé sjávarauðlindin skilgreind sem auðlind í eigu þjóðarinnar.
„Þetta er grundvallarástæðan fyrir því að svo margir eru ósáttir við kvótakerfið. Því að á sama tíma og við skilgreinum auðlindir hafsins sem þjóðareign, þá sjáum við samþjöppun í sjávarútvegi og gríðarlegan auð safnast á fárra manna hendur. Þetta er líka til skoðunar hjá matvælaráðherra og varðar gjaldtökuna og líka þegar um er að ræða svona tilfærslu á auðmagni eins og sést í þessu dæmi,“ segir Katrín.
Ætlar mögulega að leggja aftur fram tillögu um auðlindir í þjóðareign
Aðspurð hvers vegna ekki sé búið að hækka gjaldtöku á sjávarauðlindunum eða setja í stjórnarskrá að auðlindir skuli vera í þjóðareign svarar Katrín.
„Veiðigjöldunum var breytt á síðasta kjörtímabili og tekið upp mun skynsamlegra kerfi sem mun skila tekjuaukningu í ríkissjóð. Hvað varðar auðlindir í þjóðareign þá lagði ég það auðvitað til en það mál komst ekki í gegnum þingið og bætist þar með í hóp fjölda álíka tillagna sem hafa aldrei náð fram að ganga. Ég myndi með gleði aftur leggja slíka tillögu fram og geri það mögulega síðar á þessu kjörtímabili. Hins vegar þarf það ekki að standa í vegi fyrir því að við gerum breytingar á gjaldtöku í sjávarútvegi,“ segir Katrín.
Sameiningar í sjávarútvegi hafi reynst vel
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að samkeppniseftirlitið fari nú yfir kaupin og því ekki tímabært að tjá sig um þau. Sameiningar í sjávarútvegi hafi hins vegar reynst þjóðarbúinu vel hingað til.
„Frá því framsalið var gefið frjálst og ef við horfum á sameiningar svona þrjátíu ár aftur í tímann þá hafa þær heilt yfir séð verið til þess fallnar að auka arðsemi veiðanna sem er mikilvægt fyrir þjóðarbúið í heild . Varðandi samþjöppunina þá eru lög og reglur sem gilda og samkeppnissjónarmið sem verður horft til. Nú fer þetta í þann farveg og ég vænti þess að það taki tíma og ég fylgist með eins og aðrir hvað kemur út úr þeirri athugun,“ segir Bjarni.