Gotabaya Rajapaksa flúði eftir að mótmælendur tóku yfir forsetahöllina og er hann sagður hafa tekið eiginkonu sína, tvo lífverði og herflugvél til Maldíveyja. Rajapaksa hefur heitið því að segja af sér embætti í dag en fjölskylda hans hefur stjórnað landinu síðustu tvo áratugi.
Samkvæmt BBC ætlar forsetinn ekki að halda kyrru fyrir í Maldíveyjum heldur er hann sagður ætla að ferðast til annars ríkis og er talið mögulegt að hann sé á leið til Singapúr eða Dúbaí.
Basil Rajapaksa, bróðir forsetans og fyrrverandi fjármálaráðherra, ku einnig hafa flúið land og er sagður á leið til Bandaríkjanna.
Sjá einnig: Forsætisráðherrann orðinn forseti og neyðarástandi lýst yfir
Umfangsmikil mótmæli hafa átt sér stað í Srí Lanka undanfarna daga, vegna gífurlegra efnahagsvandræða þar.
Efnahagsvandræði Srí Lanka hafa að miklu leyti verið rakin til lélegrar efnahagsstjórnar stjórnvalda eyríkisins. Forsvarsmenn ríkisins hafa þó haldið því fram að faraldri kórónuveirunnar og tilheyrandi fækkun ferðamanna sé um að kenna.

Mótmælendur hafa krafist nýrrar ríkisstjórnar. Wickremesinghe hefur sagt að hann muni ekki segja af sér fyrr en ný ríkisstjórn hefur verið mynduð.
Þúsundir mótmælenda ruddu sér leið inn á skrifstofur forsætisráðuneytisins í morgun. Í fyrstu skutu lögregluþjónar táragasi að mótmælendum en að endingu virtust þeir gefast upp, samkvæmt AP fréttaveitunni.
„Við munum elda hérna, borða hérna og búa hérna. Við verðum hér þar til hann [Wickremesinghe] segir af sér,“ sagði einn mótmælenda í samtali við AP.
Um helgina gerðu mótmælendur hið sama við forsetahöllina, eins og áður hefur komið fram. AP segir að síðan þá hafi þúsundir sótt forsetahöllina heim, stungið sér til sunds, lagt sig eða virt fyrir sér málverkin þar.
Sjá einnig: Mótmælendur brutust inn á heimili forseta Srí Lanka
Wckremesinghe segist hafa skipað sérstaka nefnd yfirmanna í lögreglunni og hernum og þeirra verk sé að tryggja frið í Srí Lanka.

Muni Rajapaksa segja af sér, eins og hann hefur sagst ætla að gera, segjast þingmenn ætla að kjósa nýjan forseta til að sitja út núverandi kjörtímabil, sem endar árið 2024. Sá forseti myndi þá skipa nýjan forsætisráðherra sem þingið þyrfti að samþykkja.