Rússar hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir að koma í veg fyrir útflutninginn og Sameinuðu þjóðirnar sagt aðgerðirnar ógna fæðuöryggi víða um heim. Mörg ríki eru háð kornvörum frá Úkraínu sem hefur lengi verið einn stærsti útflytjandi hveitis, korns og sólblómaolíu í heiminum. Matvælaverð á hrávörumörkuðum hefur lækkað eftir að fregnir bárust af samkomulaginu sem undirritað var upp úr klukkan 14 á íslenskum tíma.
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hélt til Istanbúl í Tyrklandi í dag til að undirrita samninginn en tyrknesk stjórnvöld hafa haft milligöngu um sáttaviðræðurnar. Guterres segir að undirritun samkomulagsins kveiki vonarneista á tímum stríðs og líklega sé um að ræða hans mikilvægasta verk frá því að hann tók við stjórnartaumunum hjá SÞ árið 2017.
Tyrkir hafa eftirlit með skipunum
Í samkomulaginu fallast rússnesk stjórnvöld á vopnahlé til þess að liðka fyrir kornútflutningunum og munu Tyrkir hafa eftirlit með skipunum til að koma í veg fyrir að þau verði nýtt undir vopnaflutninga.
Úkraínski þingmaðurinn Oleksiy Goncharenko situr á þingi fyrir hafnarborgina Odessa þar sem mikið magn korns hefur safnast upp síðustu mánuði. Goncharenko segir í samtali við BBC að hann reikni með því að útflutningur geti hafist í næstu viku ef allt sé til reiðu. Þrátt fyrir niðurstöðuna segist hann eiga erfitt með að treysta því að rússnesk stjórnvöld muni efna samkomulagið í ljósi fyrri hegðunar.
Fram kemur í frétt BBC að Matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna hafi lengi fest kaup á korni frá Úkraínu til að brauðfæða ríki sem standi frammi fyrir hungursneyð. Á seinasta ári neyttu um 400 milljónir manna korns frá Úkraínu.