Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur, sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að vísar að gígum væru farnir að myndast, sambærilegir þeim sem voru í síðasta gosi.

„Þetta er eitt af því sem gerist í þessum sprungugosum. Fyrst myndast ein sprunga sem gýs og það myndast eldveggur og svo þegar líður á gosið fer kvikan að, opin fara að þrengjast og við förum að sjá einstaka gígop og á þeim hlaðast upp gígar,“ sagði Kristín.
Gosið svipað því sem var í fyrra
Hugsanlegt sé að fleiri op opnist en þá yrði það líklega á sömu línu og sé virk núna. Þá segir Kristín að gosið sé mjög svipað því sem var í Geldingadölum í fyrra.
„Hraunflæðið virðist vera áþekkt, kannski heldur meira. Nýjustu mælingar frá Háskóla Íslands sýna að hraunflæðið er sautján rúmmetrar á sekúndu og þetta var að rokka frá fimm upp í tuttugu eftir mælingum síðast þannig að við erum innan þessara marka,“ sagði Kristín.

Vísindamenn séu að skoða sprungurnar og kortleggja gosið
Sprungur mynduðust og grjót féll víða úr hlíðum á Reykjanesskaga í jarðskjálftahrinunni sem reið yfir áður en gosið hófst. Þá barst fjöldi tilkynninga um tjón frá Grindavík eftir hrinuna.
„Þetta voru það margir skjálftar, þetta eru um tuttugu skjálftar sem eru yfir fjórir að stærð og upp í 5,4. Þannig að þetta eru margir staðir sem þarf að skoða en vísindafólk, bæði hér á veðurstofunni og í Háskóla Íslands, er að skoða þessar sprungur og kortleggja þetta allt saman,“ sagði Kristín í samtali við fréttastofu.