Innlent

Gul við­vörun vegna úr­hellis­rigningar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það er spáð töluverðri rigningu á Vestfjörðum í nótt og á morgun.
Það er spáð töluverðri rigningu á Vestfjörðum í nótt og á morgun. Vísir/Vilhelm

Spáð er úrhellisrigningu á Ströndum og Norðurlandi vestra í nótt og á morgun. Gul viðvörun vegna veðurs tekur gildi á svæðinu í nótt sem og á Vestfjörðum.

Spáð er úrhellisrigningu á Stöndum og eru líkur taldar á skriðuföllum á svæðinu. Einnig mun vaxa mikið í ám og lækjum sem geta orðið illfærir.

Viðvörunin tekur gildi klukkan eitt í nótt og er í gildi til miðnættis á morgun. Einnig er spáð allmikilli rigningu við Djúpið á Vestfjörðum. Taldar eru líkur á skriðuföllum, sem og vatnavöxtum í ám og lækjum.

Viðvörunin fyrir Vestfirði tekur gildi klukkan þrjú í nótt og stendur til miðnættis annað kvöld.

Veðurhorfur á landinu

Austan og norðaustan 3-10 m/s, en norðlægari á Vesturlandi. Rigning með köflum suðaustantil, en annars víða skúrir.

Norðlæg átt, 5-10 á morgun, en 10-18 um landið vestanvert síðdegis, hvassast norðvestantil. Rigning með köflum á norðanverðu landinu, talsverð eða mikil norðvestantil, skúrir eystra, en annars þurrt að kalla. Hiti 7 til 15 stig, svalast á Vestfjörðum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Norðan 8-15 m/s á vesturhelmingi landsins, en 5-8 eystra. Lægir heldur um kvöldið. Rigning og hiti 3 til 8 stig á norðanverðu landinu, en bjart sunnan heiða með hita að 15 stigum allra syðst.

Á sunnudag:

Norðlæg átt, 3-10 m/s og sums staðar dálitlar skúrir. Hiti 5 til 14 stig að deginum, mildast sunnan heiða.

Á mánudag:

Hæg norðaustanátt og skúrir á víð og dreif. Milt veður að deginum.

Á þriðjudag:

Gengur í ákveðna norðanátt með rigningu á austanverðu landinu, en hægara og úrkomulítið vestantil. Kólnar heldur.

Á miðvikudag:

Útlit fyrir stífa norðanátt með vætu, einkum norðan- og austantil. Fremur svalt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×