Systur sigruðu í fyrra
Íslenska undankeppnin verður haldin í febrúar og mars á næsta ári en þá kemur í ljós hver verður fulltrúi Íslands í Eurovision. Í fyrra var það hljómsveitin Systur sem skipar þau Siggu, Elínu, Betu og Eyþór sem keppti fyrir Íslands hönd.
Þau fóru út með lagið Með hækkandi sól sem Lay Low samdi. Lagið komst áfram í úrslitakeppnina á Ítalíu og vakti mikla lukku.
Allir geta tekið þátt
Þar sem opnað hefur verið fyrir umsóknir geta allir tekið þátt með því að senda inn lag hér. Líkt og áður verða tíu lög valin til þess að keppa um sæti í stóru keppninni sem valið verður með sama hætti og undanfarin ár. Sérstök valnefnd, skipuð fulltrúum FTT, FÍH og RÚV koma til með að fara yfir lögin sem send verða inn.
Auk þess sem opnað hefur verið fyrir umsóknir verður óskað eftir sérstökum framlögum frá reyndum og vinsælum lagahöfundum til þess að taka þátt.
Umsóknarfrestur rennur út í október
Umsóknarfrestur rennur út á miðnætti þriðjudaginn 4. október næstkomandi en í janúar verður tilkynnt hvaða lög taka þátt. Undanúrslitin fara fram 18. og 25. febrúar og fer úrslitakvöldið fram laugardaginn 4. mars.
Þar keppast fjögur lög um að verða framlag Íslendinga í Eurovision 2023 en sem fyrr áskilur framkvæmdastjórn keppninnar sér leyfi til að hleypa auka lagi áfram í úrslitin.
Erlendar stjörnur koma fram
Í ár verður engin undantekning á þeirri hefð sem hefur myndast síðustu ár að fá erlendar stórstjörnur úr Eurovision heiminum til þess að troða upp í Höllinni á úrslitakvöldinu. Stjörnur á borð við Tusse, Eleni Foureira, Alexander Rybak, Loreen, Robin Bengtsson, Måns Zelmerlöw og fleiri hafa komið fram og verður spennandi að sjá hver lætur sjá sig í ár.