„Það byrjaði hrina rétt eftir miðnætti í nótt og stærsti skjálftinn í hrinunni er 4,9 að stærð og varð um fjögur i morgun og við höfum fengið þónokkrar tilkynningar að skjálftinn hefði fundist á Norðurlandi. Það eru enn að koma skjálftar inn í kerfið en í heildina hafa um fjögur hundruð skjálftar mælst frá miðnætti.“
Þetta segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir. Flekaskil liggi þarna þvert yfir og eðlilegt sé að hrinur verði á þessu svæði reglulega.
„Árið 2013 varð skjálfti upp á 5,4 að stærð og árið 2018 reið annar yfir sem var 5,2 að stærð þannig að það er ekki óvanalegt að fá svona stærri skjálfta á þessu svæði,“ bætir Lovísa við.
En þótt Grímseyingar sjálfir kippi sér ekki mikið upp við skjálftavirkni þá kom sá stóri þremur ferðalöngum í opna skjöldu þegar hann reið yfir í nótt. John Webb og tveir félagar hans frá Wisconsin í Bandaríkjunum dvelja þessa dagana á gistiheimilinu Básum í Grímsey. Þeim dauðbrá öllum við hristinginn sem fylgdi jarðskjálftanum í nótt.
„Við vorum allir í fasta svefni þegar húsið byrjar allt að skjálfa. Við vöknum með andfælum og fannst þetta frekar ógnvekjandi. Ég hef einu sinni upplifað skjálfta áður, það var á Havaí, svo ég vissi nokkurn veginn hvað væri í gangi en einn af vinum mínum hélt að við tveir værum í slagsmálum eða eitthvað á gólfinu,“ sagði Webb og hópurinn skellti upp úr.
Webb viðurkennir að hafa verið pínu hræddur.
„Já, ég var pínu hræddur. Þessi skjálfti var allt öðruvísi en þessi sem reið yfir á Havaí, það er alveg á hreinu. Þessi var meira eins og titringur. Þetta gerðist allt svo skyndilega en þú gast heyrt í honum ríða yfir. Þetta var eins og lest á fullri ferð, eins konar drunur. Þetta var svolítið ógnvekjandi í nokkrar mínútur en engir munir færðust til eða neitt svoleiðis og við áttuðum okkur mjög fljótt á því að þetta væri jarðskjálfti og að við værum í öruggum höndum,“ segir Webb sem bætti við að náttúran á Íslandi sé sannarlega iðandi af lífi.