Kristjana var mætt á hátíðina ásamt vinkonu sinni og samstarfskonu Eddu Sif Pálsdóttur. Mögulega hugsar hún samstarfskonunni þegjandi þörfinni eftir birtingu myndskeiðs frá útsendingu kvöldsins en líklegra er þó að hún hlæi að öllu saman.
Kristjana og Edda sátu á bekk fyrir aftan sjónvarpsframleiðandann Margréti Jónasdóttur. Margrét framleiddi heimildarmynd ársins, Hækkum rána, sem vann í flokknum Heimildarmynd ársins. Við tilkynninguna reis Margrét fagnandi úr sæti og fyrir aftan sat Kristjana í sakleysi sínu.
Ekki vildi betur til en svo að Kristjana var að troða nikótínpoka í efri vörina á sér. Augnablikið sást vel í sjónvarpi allra landsmanna en væri líklega týnt og tröllum gefið ef ekki væri fyrir vökult auga Eddu Sifjar.
Edda, sem einnig var tilnefnd í flokknum sjónvarpsmaður ársins, birti nokkurra sekúndna myndskeið á Twitter í kvöld. Segja má að myndskeiðið sé í þessum töluðu á sigurför á samfélagsmiðlinum.
„Má aðeins hafa gaman mamma þarf að djamma SLAKIÐ Á!!“ skrifar Edda og ekki sér fyrir endann á ummælum og lækum sem myndbrotið safnar. Öllum til gamans, meira að segja Kristjönu.
Gleðileg jól bara frá okkur á Eddunni pic.twitter.com/8JjyiAUru6
— Edda Sif Pálsdóttir (@EddaSifPalsd) September 18, 2022
Stuðið hjá Eddu og Kristjönu var mikið í kvöld. Auk þeirra voru Guðrún Sóley Gestsdóttir á RÚV og Sigrún Ósk Kristjánsdóttir á Stöð 2 tilnefnd sem sjónvarpsmaður ársins. Það var hins vegar Helgi Seljan, blaðamaður á Stundinni, sem hlaut verðlaunin.
Það var annað tilefni fyrir sjónvarpskonurnar á RÚV til að slá á létta strengi í Háskólabíó í kvöld. Varpaði Edda Sif fram spurningunni, augljóslega í gríni, hvort allir væru ekki búnir að fá nóg af Helga Seljan? Með fylgdi mynd af vinkonunum þar sem þær þóttust afar ósáttar með niðurstöðuna.
Meðal þeirra sem svara tístinu var Helgi sjálfur sem átti ekki heimangengt á hátíðina.
„Tengi!!“ skrifar Helgi á léttum nótum.
Hver er í alvörunni ekki búinn að fá nóg af @helgiseljan ?! #eddan pic.twitter.com/2HeCcuHgmv
— Edda Sif Pálsdóttir (@EddaSifPalsd) September 18, 2022