Þetta kemur fram á vef lögreglunnar þar sem segir að gasmælingar í dag gefi ekki tilefni til áframhaldandi lokunar.
Í gær mældust tveir skjálftar yfir þremur að stærð í Mýrdalsjökli, báðir þann 16.október. Nokkrir minni skjálftar fylgdu í kjölfarið. Sá stærri mældist rétt fyrir hádegi og reyndist 3,8 að stærð.
Grannt er fylgst með eldstöðinni Kötlu og var ákveðið að setja tímabundið bann á ferðir í vinsæla íshella í Kötlujökli.
Ástæða lokunarinnar var sú að ekki var talið útilokað að hlaup gæti hafist í Múlakvísl, en skammur viðbragðstími er mögulega fyrir hendi ef slíkt gerist.

Í færslu á vef lögreglunnar segir að svæðið sé áfram í vöktun og brugðist verði fljótt við verði breyting á aðstæðum eða skjálftavirkni.
Er ferðaþjónustuaðilum á svæðinu þó bent á að skynsamlegt sé að útbúa leiðsögumenn með gasmælum. Þá sé mikilvægt að hópar séu reiðubúnir til að yfirgefa svæðið strax ef mælingar breytast.