Sauli Niinistö forseti Finnlands og eiginkona hans Jenni Haukio komu til Bessastaða í morgun þar sem íslensku forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid tóku á móti þeim á hlaðinu ásamt krökkum úr Álftanessskóla. Lúðrasveit verkalýðsins lék þjóðsöngva landanna.

Áður en forsetarnir gengu inn í Bessastaðastofu til skrafs og ráðagerða heilsuðu þeir upp á forseta Alþingis, ráðherra í ríkisstjórn Íslands og starfsfólk forsetaskrifstofunnar. Guðni sagði heimsóknina styrkja samband þjóðanna sem alla tíð hefði verið gott og undirstrika náin vinskap Norðurlandaþjóðanna. Íslendingar styddu heilshugar aðildarumsókn Finna að Atlantshafsbandalaginu á þeim krefjandi tímum sem nú ríktu og væru framundan.

„Eftir því sem við sýnum hvert öðru meiri samstöðu og stuðning þeim mun betur getum við stutt aðra, eins og Úkraínumenn," sagði Guðni á stuttum fundi forsetanna með fréttamönnum í dag.
Finnar hafa í áratugi leikið mikla jafnvægislist í samskiptum sínum fyrst við Sovétríkin og síðar Rússland. Niinistö segir aðildarumsókn og seinna aðild Finna að NATO ekki skapa hindranir í samskiptum við Rússa.
„Það gerir hegðun Rússa í Úkraínu. Að þeir réðust á og reyndu að leggja undir sig fullvalda ríki sem er vandamálið, ekki aðild Finnlands að NATO," sagði Niinistö.

Að loknum fundi forsetanna á Bessastöðum hélt Finnlandsforseti og fylgdarlið hans á Alþingi og átti fund með Birgi Ármannssyni forseta þingsins. Eftir það tók finnski forseti göngutúr frá Alþingishúsinu meðfram Tjörninni að Ráðherrabústaðnum.
Þar bauð Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra forsetanum og fylgdarliði hans ásamt íslensku forsetahjónunum í hádegisverð. Aðildarumsók Finna og Svía að NOTO hefur örugglega verið þar til umræðu.

Forsætisráðherra segir unnið að því innan NATO að Ungverjar og Tyrkir samþykki eins og allar hinar aðildarþjóðirnar umsókn Finna og Svía að bandalaginu.
„Það samtal er í gangi. Ísland ákvað auðvitað að fara strax í þetta verkefni. Það gerðum við einmitt vegna okkar nánu tengsla við Svíþjóð og Finnland og vegna þess að þetta er þessi lýðræðislega ákvörðun sem þessi ríki taka," sagði Katrín Jakobsdóttir.