Sérstakur starfshópur gegn hatursorðræðu sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipaði tók til starfa í lok júní og vinnur nú að tillögum að mögulegum aðgerðum.
„Þau eru búin að vera að funda með alls konar frjálsum félagasamtökum, stofnunum og hagsmunaaðilum í samfélaginu. Og það sem er svo fram undan er að hópurinn ætlar að skila til mín fyrir áramót og væntanlega verður lögð fram þingsályktunartillaga eftir áramót,“ segir Katrín.
Hópurinn skoðar hatursorðræðu vegna til dæmis kynþáttar, litarháttar, þjóðernisuppruna, kynhneigðar og kynvitundar. Katrín segir verkefnið snúið - enda snýst það um mörk tjáningarfrelsis og skaðlegrar orðræðu.
„Kannski erum við bara að læra það í raun og veru í allri þessari umræðu sem hefur átt sér stað hvenær við getum talað um hatursorðræðu og hvenær við erum að tala um hvassa gagnrýni eða eitthvað annað slíkt,“ segir hún.
„Og það skiptir máli fyrir okkur stjórnmálamennina að eiga þessa umræðu, og þess vegna hyggst ég leggja ég fram þessa þingsályktunartillögu til að Alþingi geti einmitt tekist á um þetta. En ég held að þetta snúist ekki bara um löggjöf heldur líka hvernig við virkjum menntakerfið og vinnumarkaðinn með okkur í baráttuna gegn hatursorðræðu.“

Aukin tíðni hatursorðræðu gegn hinsegin fólki hefur verið í umræðunni undanfarið og mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð borgarinnar ályktaði til að mynda á dögunum um áhyggjur af stöðu hinsegin barna í skólum vegna nýlegra frásagna af aðkasti. Aðspurð hvort hún telji hatursorðræðu hafa aukist segir Katrín að dæmi um slíkt hafi vissulega komið upp undanfarið.
„Tilfinning mín er að hún hafi farið vaxandi en mögulega er umræðan um hana meiri og það er eitt af því sem er dálítið erfitt að greina. En auðvitað á hún bara ekki að líðast í neinum mæli,“ segir Katrín.