Ísland tapaði með þriggja stiga mun, 85-88, gegn Georgíu í Laugardalshöll í kvöld. Leikurinn var nokkuð vel spilaður hjá íslenska liðinu, sérstaklega ef horft er til þess að Martin Hermannsson - einn albesti körfuboltamaður landsins - er frá vegna meiðsla.
Dómgæslan undir lok leiks var heldur skrautleg og þó leikmenn liðsins hafi talað um að þetta hafi einfaldlega ekki fallið með Íslandi í kvöld þá voru sérfræðingarnir Benedikt og Matthías Orri Sigurðsson á öðru máli.
Hvernig fá dómararnir þetta út? pic.twitter.com/SUGetSqEnn
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) November 11, 2022
Ásamt því að segja að um skandal væri að ræða þá þakkaði Benedikt fyrir að vera í setti á RÚV þar sem hann hefði eflaust strunsað á eftir dómurum leiksins hefði hann verið áhorfandi. Það atvik sem um er ræðir var undir lok leiks þegar Sigtryggur Arnar Björnsson er að fara í þriggja stiga skot brotið er á honum.
Dómarinn dæmir hins vegar ekki þrjú vítaskot þar sem hann sagði að Sigtryggur Arnar væri að fara gefa boltann, eitthvað sem hvert mannsbarn sá að var alls ekki að fara gerast enda enginn Íslendingur til að gefa á miðað við hvernig Sigtryggur Arnar stóð. Eldræðu Benedikts má sjá hér að neðan.
Benni Guðmunds er algjörlega brjálaður. Þetta er algjör skandall. pic.twitter.com/TOIoKgOvOo
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) November 11, 2022
Ísland á þó enn möguleika á að komast á HM 2023 en liðið þarf að byrja á að vinna Úkraínu á mánudag.