Innlent

Nokkrir tugir manna í vél­hjóla­klúbbum sem stunda glæpi hér á landi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Runólfur segir klúbba sem þessa engin landamæri virða.
Runólfur segir klúbba sem þessa engin landamæri virða. Vísir/Arnar

Nokkrir tugir manna eru í vélhjólaklúbbum sem stunda skipulagða brotastarfsemi hér á landi að mati ríkislögreglustjóra. Nokkrir slíkir klúbbar eru virkir hér á landi.

Hátt í þrjátíu meðlimum vélhjólaklúbbsins Hells Angels var vísað frá landinu um helgina. Lögreglan taldi mennina ógn við þjóðaröryggi en allir komu þeir til landsins frá Svíþjóð og Þýskalandi til að vera viðstaddir gleðskap á vegum klúbbs samtakanna hér á landi.

Hells Angels er flokkaður sem Skipulögð glæpasamtök af Europol og er álitinn slíkur hér á landi sömuleiðis. Meðlimir Hells Angels telja um 3.500 í 59 löndum en auk þeirra er fjöldi stuðningsklúbba, sem teljast ekki beint til Hells Angels en eru þó hluti af starfseminni. Þar má til dæmis nefna Red Devils og Gatekeepers. Hér á landi telur lögregla nokkurn fjölda hluta af klúbbum sem þessum.

„Við teljum að í þessum vélhjólagengisklúbbum, sem eru starfandi hér á landi, séu nokkrir tugir einstaklinga, í nokkrum mismunandi klúbbum og bera öll einkenni skipulagðrar brotastarfsemi,“ segir Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra. 

Hann nefnir í þessu samhengi, auk Hells Angels, klúbbana Outlaws og Bandidos. Brotastarfsemi þeirra sé fjölbreytt.

„Þetta er yfirleitt mjög fjölþætt starfsemi. Þetta er hagnaðardrifin starfsemi þannig að brotaflokkarnir geta verið margvíslegir og í öllum tilvikum hagnaðardrifnir,“ segir Runólfur. 

Vísbendingar séu um að klúbbar hér á landi séu í virkum samskiptum við klúbba erlendis.

„Einkenni þessarar starfsemi er sú að í dag er hún mjög alþjóðleg, virðir engin landamæri,“ segir Runólfur.

„Lögreglan þarf að gefa þessu meiri gaum. Atburðir helgarinnar eru vísbending um að mögulega séu þessir hópar hér á landi að eflast.“


Tengdar fréttir

Fimm til við­bótar yfir­gefa landið á morgun

Þeir fimm meðlimir vélhjólagengisins Hells Angels sem komu til landsins seint í gærkvöldi og lögregla hafði til skoðunar í dag munu yfirgefa landið í fyrramálið. Útlendingastofnun féllst á frávísun í tilviki fjögurra vegna tengsla við samtökin Hells Angels í Þýskalandi en sá fimmti mun yfirgefa landið sjálfviljugur.

Öllum tuttugu og tveimur með­limum Hells Angels vísað frá landi

Öllum þeim tuttugu og tveimur meðlimum vélhjólaklúbba sem komu til landsins í gær hefur verið vísað frá landi. Allir voru þeir meðlimir vélhjólagengisins Hells Angels og undirklúbba þess. Lögregla hefur til skoðunar fimm aðra sem komu til landsins seint í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×