Skoðun

RÚV á ekki að sýna frá HM í Katar

Ólafur Hauksson skrifar

Sjónvarpsútsending frá HM í fótbolta er eina ástæðan fyrir áhuga Katar á því að halda keppnina. Gegnum sjónvarpið áformar þetta ríki þrælahalds, kúgunar og mannréttindabrota að skapa af sér glansmynd með hjálp vinsælustu íþróttar heims.

Einu réttu siðferðislegu viðbrögð okkar Íslendinga – og heimsins alls – er að sýna ekkert í sjónvarpi frá HM.

Það er RÚV ekki sæmandi að segja fréttir af dauða 6.500 verkamanna við að byggja fótboltastúkurnar og hefja svo daginn eftir beinar útsendingar frá þeim sömu mannvirkjum. Með slíkri útsendingu er verið að ganga erinda böðlanna. Sjónvarpi allra landsmanna er ekki stætt á því að vera þátttakandi í falskri glansmyndasýningu frá Katar.

Það er engin afsökun fyrir meðvirkni í mannréttindabrotum að HM sé svo vinsæl og margir ætli að horfa. Allur óþverraskapurinn þrífst vegna sjónvarpsútsendinganna og af engri annarri ástæðu.

Það minnsta sem áhugafólk um fótbolta getur gert til að sýna andúð á framferði Katara er að neita sér um að horfa á HM. Hvetja RÚV til að hætta við útsendingarnar. Um leið eru það skýr skilaboð til FIFA, alþjóðasamtaka knattspyrnusambanda, vegna þeirrar spillingar sem leiddi til þess að Katar var valið til að halda HM.

Höfundur starfar við almannatengsl.




Skoðun

Sjá meira


×