„Peningar eru ekki til fyrir stunguvestum fangavarða og að öðru óbreyttu fækkar um 50 rými í fangelsiskerfinu af 170 um áramótin á sama tíma og 320 einstaklingar bíða nú eftir að hefja afplánun. Lögreglunni mætir nú 2% aðhaldskrafa, tvöföldun frá fyrra ári. Þetta er pólitísk ákvörðun ríkisstjórnar, síendurtekin yfir áratug [...] Þessar pólitísku ákvarðanir ógna nú öryggi lögreglufólks vegna undirmönnunar og ógna réttaröryggi í landinu,“ sagði Kristrún í ræðu sinni.
Hún segir að nú slái ríkisstjórnin um sig með 65 milljónum króna sem eigi að fara í fjölga nemendum lögreglunámi á háskólastigi. Um leið sé ráðist í aðhald sem kalli á uppsagnir innan lögreglunnar. Það sé enn eitt dæmi um skort á heildarsýn. Engin heildræn stefna sé í aðhaldi eða uppbyggingu sem skili sér einungis í stórkostlegum kostnaði og veikum innviðum.
Stjórnmálamenn þurfi að standa með lögreglunni
Jóhann Páll tók undir og sagði að stjórnmálamenn þyrftu að standa með lögreglunni, rétt eins og öðrum stofnunum samfélagsins. Standa eigi með fangelsunum og réttarvörslukerfinu í heild sinni. Það verði ekki gert með því að fjársvelta lögregluna og fangelsi landsins.
„Hvers konar stríð gegn glæpum er það nú eiginlega þegar afbrotamenn ganga lausir af því að fangelsin geta ekki tekið við þeim vegna vanfjármögnunar? Og hvers konar stríð gegn glæpum er það þegar menntuðum lögreglumönnum fækkar og fækkar og þegar Ísland lendir í botnsæti í samanburði milli landa eftir fjölda lögreglumanna miðað við höfðatölu?“
Hann skaut föstum skotum á Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sem á dögunum boðaði stríð gegn skipulegri glæpastarfsemi.
„Hvers konar stríð gegn glæpum er það nú eiginlega þegar öryggi fangavarða er ekki tryggt og þegar aðbúnaði í fangelsum er stórkostlega ábótavant eins og Fangelsismálastofnun hefur farið yfir, og þegar fangelsiskerfið er of vanbúið til að geta veitt fólki alvöru tækifæri til betrunar? Virðulegi forseti, þessi frasi dómsmálaráðherra um stríð gegn skipulagðri brotastarfsemi er hálfgerður brandari þegar við lítum á staðreyndirnar fyrir framan okkur,“ sagði Jóhann Páll.