Körfubolti

„Dómarar elska að taka ástríðuna úr leiknum“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Brynjar Þór var ekki ánægður með tæknivilluna sem Pétur Rúnar Birgisson, leikmaður Tindastóls, fékk gegn Haukum.
Brynjar Þór var ekki ánægður með tæknivilluna sem Pétur Rúnar Birgisson, leikmaður Tindastóls, fékk gegn Haukum. Vísir

Brynjar Þór Björnsson var allt annað en ánægður með tæknivillur sem dæmdar voru á Pétur Rúnar Birgisson, leikmann Tindastóls, í leik gegn Haukum í Subway-deildinni. Brynjar Þór vill að leikmenn fái að sýna meiri tilfinningar inni á vellinum.

Subway Körfuboltakvöld var á dagskrá á Stöð 2 Sport í gærkvöldi þar sem þáttastjórnandinn Kjartan Atli Kjartansson var með sérfræðingana Matthías Orra Sigurðarson og Brynjar Þór Björnsson í setti hjá sér og farið var yfir síðustu umferð í Subway-deild karla í körfuknattleik.

Meðal þess sem strákarnir ræddu voru tæknivillur sem dæmdar voru á Pétur Rúnar Birgisson, leikmann Tindastóls, í leiknum gegn Haukum. Pétur Rúnar var rekinn út úr húsi og Brynjar Þór var allt annað en ánægður með dómarana.

„Dómarar elska að taka ástríðuna úr leiknum, Þetta er það sem þeir vilja. Það er ekkert gaman að spila íþróttir og körfubolta ef það má ekki aðeins blása,“ sagði Brynjar Þór þegar Kjartan Atli spurði hann að því hvað honum þætti um þá reglu að refsa ætti leikmönnum sem mótmæltu dómi á leikrænan hátt.

„Þú ert í jöfnum leik, það eru fimm mínútur eftir og það er klár villa. Dómarinn refsar tvisvar, dæmir ekki villuna, þeir fá hraðaupphlaup og körfu. Þeir dæma síðan tæknivillu og aðra tæknivillu. Af hverju er Pétur Rúnar að mótmæla? Þetta er prúðasti leikmaður landsins síðustu tíu ár. Af hverju er hann reiður?“ spurði Brynjar Þór.

„Af hverju ert þú reiður?“ spurði Matthías Orri þá Brynjar til baka, en Brynjar var greinilega alls ekki ánægður með þessa línu dómaranna.

Klippa: Brynjar Þór um tæknivillur

Brynjar vill að dómarar lesi betur í aðstæður.

„Þú verður að lesa í aðstæður og stjórna leiknum. Er þetta á fyrstu mínútu eða eru fimm mínútur eftir? Er þetta prúðasti leikmaður deildarinnar? Ef þetta er ég sem er alltaf tuðandi, refsaðu mér. Pétur er ekki þessi gæi sem er mikið að tuða í dómurum.“

Alla umræðu þeirra Kjartans Atla, Brynjars Þórs og Matthíasar Orra má sjá í spilaranum hér að ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×