Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg en Vísir greindi frá því fyrr í dag að bilun er komin upp í Hellisheiðarvirkjun svo engin framleiðsla er á heitu vatni sem stendur. Öllum sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið lokað vegna þessa.
Fram kemur í fyrrnefndri fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg nú síðdegis að sundlaugarnar og Ylströndin verði lokaðar eitthvað fram eftir degi eða þar til viðgerðum er lokið.
Þetta gildir þó ekki um Sundlaug Seltjarnarness. Í skriflegu svari til Vísis áréttar María Björk Óskarsdóttir, sviðsstjóri Þjónustu- og samskiptasviðs Bæjarskrifstofur Seltjarnarnesbæjar að þótt flestar sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu séu lokaðar þá gildi það ekki um Seltjarnarnes. Allir séu velkomnir í sund til klukkan 22 í kvöld.
„Sundlaug Seltjarnarness er opin en Seltjarnarnesbær er með sína eigin hitaveitu, Hitaveitu Seltjarnarness og hefur bilun hjá Veitum / Hellisheiðarvirkjun því engin áhrif á okkur hér á Seltjarnarnesi.“
Vísir fylgist með tíðindum af veðrinu í veðurvaktinni. Lesendur eru hvattir til að senda ábendingar, myndir og myndbönd á ritstjorn@visir.is.