Viðskipti erlent

Norska ríkisstjórnin gefur út 47 ný leyfi til olíuleitar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Johan Sverdrup-svæðinu í Norðursjó.
Frá Johan Sverdrup-svæðinu í Norðursjó. Equinor/Espen Rønnevik og Øyvind Gravås.

Olíu- og orkumálaráðherra Noregs, Terje Aasland, hefur úthlutað 47 nýjum sérleyfum til olíuleitar og olíuvinnslu á norska landgrunninu. Ráðherrann tilkynnti um úthlutunina á árlegri ráðstefnu norska olíuiðnaðarins í bænum Sandefjord í fyrradag.

„Frekari rannsóknarstarfsemi og nýjar uppgötvanir eru mikilvægar til að viðhalda framleiðslu á olíu og gasi, bæði fyrir Noreg og Evrópu,“ er haft eftir olíumálaráðherranum í fréttatilkynningu norskra stjórnvalda undir fyrirsögninni: „Mikill áhugi á frekari leit á norska landgrunninu.“ Kvaðst hann stoltur af úthlutuninni enda væri um að ræða fjölbreyttan hóp leyfishafa.

Leyfin eru til alls 25 olíufélaga, allt frá stórum alþjóðlegum olíurisum til minni norskra leitarfyrirtækja. Tólf fyrirtækjanna býðst fleiri en eitt leyfi og er bindandi verkáætlun tengd öllum leyfum. Flest leyfanna eru í Norðursjó, 29, í Noregshafi eru 16 leyfi og í Barentshafi tvö.

Stjórnarskiptin í Noregi haustið 2021, þegar hægri stjórn Ernu Solberg vék fyrir mið-vinstristjórn Jonas Gahr Støre, virðast litlu hafa breytt um þá meginstefnu norskra stjórnvalda að halda fullum dampi í olíuiðnaðinum til langrar framtíðar. Það er helst að dregið sé úr leyfisveitingum á norðlægustu hafsvæðunum í Barentshafi.

Terje Aasland, til vinstri, tók við embætti olíu- og orkumálaráðherra í mars í fyrra af Marte Mjøs Persen, til hægri, sem færðist yfir í atvinnumálaráðuneytið. Forsætisráðherrann Jonas Gahr Støre í miðið. Myndin var tekin framan við konungshöllina í Osló eftir sérstakan ríkisráðsfund þar sem ráðherraskiptin fóru fram.Torgeir Haugaard/Forsvaret

„Árleg úthlutun leitarsvæða er liður í því að stuðla að stöðugri starfsemi á landgrunninu og til að ná meginmarkmiðum olíustefnu stjórnvalda. Olíugeirinn er mjög afkastamikill iðnaður sem leggur til miklar tekjur, verðmætasköpun og störf.

Þessi úthlutun í dag er einnig mikilvægt framlag til að tryggja að Noregur verði áfram öruggur og fyrirsjáanlegur birgir olíu og gass til Evrópu,“ sagði olíumálaráðherrann Terje Aasland en hann kemur úr Verkamannaflokknum.

Þótt meira en hálf sé liðin frá upphafi norska olíuævintýrisins eru enn að finnast stórar olíu- og gaslindir í norsku lögsögunni. Eitt nýlegasta dæmið er Johan Sverdrup-svæðið í Norðursjó en þar hófst olíuvinnsla formlega fyrir tveimur árum, eins og sjá má í þessari frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Jólagjöf Norðmanna sögð stór gaslind í Barentshafi

Norska olíufélagið Vår Energi, sem er að meirihluta í eigu hins ítalska Eni, tilkynnti á Þorláksmessu um stóran gasfund á svokölluðu Lupa-svæði nærri Golíat-olíusvæðinu í Barentshafi. Frumathugun bendir til að stærð gaslindarinnar jafngildi 57 til 132 milljónum tunna af vinnanlegri olíu.

Norsk stjórnvöld gefa út 53 ný olíuleitarleyfi

Norsk stjórnvöld hafa úthlutað 53 nýjum sérleyfum til leitar og vinnslu olíu á landgrunni Noregs. Á sama tíma er skýrt frá því að aldrei í sögunni hafi tekjur Norðmanna af olíu- og gasvinnslu verið eins miklar og á nýliðnu ári.

Fimmtíu ár frá upphafi norska olíuævintýrisins

Það var á Þorláksmessu árið 1969 sem ráðamenn Phillips-olíufélagsins hringdu í norska iðnaðarráðuneytið og tilkynntu um að þeir hefðu fundið olíulind á Ekofisk-svæðinu í Norðursjó.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×