Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í síðustu viku. Þar lýsti íbúi Austurkórs yfir gríðarlegri óánægju vegna fyrirhugaðara framkvæmda auk þess sem Andri Steinn Hilmarsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi sagði að bæjarstjórn myndi setja sig harðlega upp á móti þeim.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að formlegt erindi hafi fyrst nú komið til bæjarstjórnarinnar og að hún muni í kjölfarið taka afstöðu til málsins.
Munu mótmæla harðlega
Hún segist hafa átt samtal við bæjarstjóra Garðabæjar, Almar Guðmundsson. „Hann er meðvitaður um okkar afstöðu. Það er einhugur í bæjarstjórn að við höfum engan áhuga á því að sjá iðnað á þessu svæði enda ekki í samræmi við okkar sýn. Þá er mikilvægt að hafa í huga að vegakerfið ber ekki þá umferð sem iðnaðarsvæði kallar á og er alls ekki hannað til þess heldur,“ segir Ásdís.
„Við munum að sjálfsögðu mótmæla harðlega einhvers konar iðnaði eins og gert er ráð fyrir í skipulagslýsingunni,“ segir Ásdís og bætir því við að hún telji farsælla að leysa þetta mál í góðu samtali við nágranna sína í Garðabæ. „En undirstrika um leið að við munum gæta hagsmuna Kópavogsbæjar og íbúa okkar í þessu máli.“