Héraðsprent var stofnað á Egilsstöðum í september 1972 af hjónunum Þráni Skarphéðinssyni og Önnu Gunnhildi Ingvarsdóttur. Með meistarabréf Þráins í prentun og eina litla trukkprentvél að vopni var fyrirtækið snúið í gang og fyrirtækið er enn í fullum rekstri og brjálað að gera. Þráinn, sem verður 86 ára á þessu ári stendur vaktina alla daga enda engan bilbug á honum að finna.
„Við gefum út Dagskrá hérna, sem er gefin út einu sinni í viku, prentum Austurgluggann og það eru ný komnar út tvær bækur, sem við prentuðum. Svo er bara allskonar smáprent fyrir norður og austurland og Reykjavíkurmarkað líka, sem við erum að sinna”, segir Þráinn.
Þráinn segist vera síðasti móhíkaninn þegar prentsmiðjur eru annar vegar.
„Já, það liggur við, það er allt horfið á Norður- og Austurlandi, allt komið á Reykjavíkursvæðið.”
Það er ekki að sjá á Þráni að hann verði 86 ára á þessu ári, hann lítur svo vel út.
„Það er bara skemmtileg vinna, sem heldur manni gangandi,” segir hann og hlær.
En hvernig gengur honum að tileinka sér tæknina og allar þær nýjungar, sem eiga sér stað þar?

„Ég byrjaði bara í blýi og þetta erum við komin með, allt stafrænt og skemmtilegt. Þetta er léttara en þegar við vorum að prenta bækur í blýi, það voru nokkur tonn af blýi, sem fóru í eina bók,” segir hann.
En hvað ætlar Þráinn að standa vaktina mikið lengur í Héraðsprenti?
„Ég hætti þegar ég er dauður.”