Á sama tíma og þúsundir rússneskra hermanna stráfalla í suður- og austurhluta Úkraínu án nokkurs teljandi árangurs í landvinningastríði Putins Rússlandsforseta, halda Rússar áfram eldflauga- og loftárásum á borgir og innviði landsins. Árásirnar voru einstaklega margar í morgun þegar Rússar skutu 50 eldflaugum ýmist frá herskipum á Svarta hafi eða herþotum, meðal annars á höfuðborgina Kænugarð.
Úkraínumenn segjast hafa grandað 47 þessara flauga og 24 íranska dróna. Auk þess hafi Rússar skotið 97 minni eldflaugum frá fjölodda eldflaugapöllum á landi.

Talsmaður Úkraínuher segir að Rússa undirbúa nýja stórsókn.
„Stofnanir á vegum ríkisins og einkaaðilar þurfa fyrir 29. janúar að leggja fram hjá hermálayfirvöldum
skrár yfir einstaklinga til þátttöku í varaliði hersins. Næsta stóra herkvaðningarbylgja mun fara fram í febrúarlok,“ segir Oleksandr Shtupun talsmaður Úkraínuhers.

Þetta kemur heim og saman við miklar sameiginlegar heræfingar Rússa og Belarússa í Belarus þessa dagana. Rússar eru einnig sakaðir um að tefja kornútflutning frá Úkraínu. Um eitt hundrað skip hafa beðið í allt að þrjár vikur eftir því að komast í eftirlitsskoðun.
Dr. Stepen Flynn sérfræðingur hjá Northeastern háskólanum í Bandaríkjunum segir að nú væru aðeins fimm skip ýmist á útleið með korn eða á leið til hafnar að ná í korn afgreidd á dag. Auðvelt væri að afgreiða tíu skip.
„Þeim sem sigla til hafnar á skipi sem hefur fengið heimild samþykkta ber einungis að staðfesta að engin vopn séu um borð í skipinu. Með vopnum erum við að tala um skotfæri í miklu magni. Við erum ekki að leita að nál í heystakki. Þetta er nokkuð sem á að vera einfalt í framkvæmd,“ segir Dr. Flynn.