Í þættinum fór Sigga yfir ferilinn og rifjaði upp nokkrar af þeim fjölmörgu kjaftasögum sem hafa gengið um hana í gegnum árin.
„Einu sinni átti ég að vera að taka að mér tvö indversk börn. Það var ein sagan. Ég var bara: Hvar fær fólk þetta? Hvar byrjar þetta bull? En ég hef aldrei tekið þetta inn á mig,“ segir Sigga.
Eins var sú kjaftasaga hávær að hún og Grétar Örvarsson, sem saman skipa hljómsveitina Stjórnina, væru par. Sigga segir sumt fólk meira að segja halda það enn þann dag í dag, svo sé þó aldeilis ekki.

„Af hverju er fólk allt í einu í einhverjum skápum?“
Sigga er samkynhneigð og opinberaði það í kringum árið 1982. Hún segist þó aldrei hafa skilið allt þetta tal um að koma út úr skápnum.
„Mér hefur alltaf fundist glatað að vera að tala um einhverja skápa. Af hverju er fólk allt í einu í einhverjum skápum?“
„Ég er bara eins og ég er,“ segir Sigga sem hefur aldrei haft miklar áhyggjur af áliti annarra. Hún hefur þó alltaf reynt að hafa skýr mörk á milli atvinnunnar og persónulega lífsins.
„Ég vil fá eitthvað rými sem ég á bara sjálf með mínum nánustu. Ég hef alltaf tekið það þannig. Svo getur fólkið átt Sigguna sem er að syngja,“ segir hún.