„New crib, who dis,“ skrifar Auðunn, sem er betur þekktur undir listamannsnafninu Auður, undir mynd af íbúðarrými í L.A.
Rýmið er smekklega innréttað og búið hljóðfærum og búnaði sem benda til þess að Auðunn sé að fara vinna að nýrri tónlist.
Auðunn steig út úr sviðsljósinu árið 2021 í kjölfar ásakana um ofbeldi. Hann sendi þá frá sér yfirlýsingu og játaði að hafa farið yfir mörk konu, líkt og fjallað hefur verið um hér á Vísi. Hann virðist þó hægt og rólega vera að hasla sér völl á ný.
Sjá: „Bið um að vera dæmdur út frá gjörðum mínum en ekki því sem er ósatt“
Hann gaf út lagið Tárin falla hægt síðasta haust, ásamt tónlistarmanninum Bubba Morthens. Lagið náði miklum vinsældum og sat meðal annars í fyrsta sæti á íslenska vinsældalistanum á streymisveitunni Spotify.
Nokkrum dögum síðar gaf hann svo út lagið Ég var ekki þar með tónlistarmanninum Jóni Jónssyni.
Í desember auglýsti Auðunn íbúð sína á Leifsgötu í Reykjavík til sölu. Í byrjun árs spurði hann svo fylgjendur sína á Instagram hvort þeir vildu fá meiri tónlist frá honum.