Þetta er niðurstaða Landsréttar sem staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þessa efnis.
Héraðsdómur dæmdi í málum yfirlögregluþjónanna fjögurra – þeirra Árna Elíasar Albertssonar, Ásgeirs Karlssonar, Óskars Bjartmarz og Guðmundar Ómars Þráinssonar – í október 2021.
Mikið var fjallað um málið í febrúar 2020 þegar fram kom í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn þingmanns að föst mánaðarlaun tveggja yfirlögregluþjóna og sjö aðstoðaryfirlögregluþjóna hefði hækkað um 48 prósent að meðaltali með samningnum sem Haraldur gerði við umrædda starfsmenn embættisins.
Þá fól samkomulagið í sér aukin lífeyrisréttindi, en með samningnum urðu laun umræddra starfsmanna hærri en laun flestra lögreglustjóra í landinu.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir tók svo við embætti ríkislögreglustjóra af Haraldi Johannessen í mars 2020 og fékk skömmu síðar lögfræðiálit um að forveri hennar í embætti hafi ekki haft heimild til að semja við yfirlögregluþjónana og aðstoðaryfirlögregluþjónana um umræddar kjarabætur.
Sigríður Björk ákvað í kjölfarið að vinda ofan af samningunum og ákváðu þeir Árni Elías, Ásgeir, Óskar og Guðmundur Ómar þá að fara fram á staðið yrði við gerða samninga og stefndu embættinu.
Alls leiddi samkomulag ríkislögreglustjóra frá 26. ágúst 2019, það er samkomulag Haraldar við lögreglumennina, til 309 milljóna króna hækkunar lífeyrisskuldbindinga sem var um 55 prósenta hlutfallsleg hækkun.