Bandaríski matvælarisinn Mondelez eignaðist Toblerone árið 2012 og hefur nú ákveðið að flytja hluta framleiðslunnar frá upprunalandi þess Sviss. Að sögn talsmanna fyrirtækisins var það gert til þess að mæta aukinni eftirspurn á heimsvísu og að þróa vörumerkið, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.
Sá hængur er hins vegar á áætlunum Mondelez að árið 2017 voru lög samþykkt í Sviss sem kveða á um að ekki megi nota svissnesk kennileiti, á borð við Matterhornfjall, á umbúðum mjólkurvara sem ekki eru alfarið framleiddar í landinu.
Aðrar vörur þurfa að vera framleiddar í Sviss að minnst áttatíu prósent hluta til þess að mega nota kennileitin.
Matterhorn hefur prýtt umbúðir súkkulaðsins frá árinu 1970 og er eitt helsta einkenni þess.
Talsmenn Mondelez hafa nú tilkynnt að fjallið verði fjarlægt af umbúðunum og annað merki muni prýða þær ásamt nýrri leturgerð og undirskrift stofnanda Toblerone, Jean Tobler.