
Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður Flokks fólksins og Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar spurðu bæði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra út í aðgerðir gegn fátækt barna í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. Þingmennirnir vitnuðu í nýja skýrslu Barnaheilla um fjölgun frá 12,7 prósentum upp í 13,1 prósent í hópi barna sem byggju við fátækt á Íslandi.
„Stefnuleysi stjórnvalda til að uppræta fátækt meðal barna á Íslandi er algjört. Að vernda og tryggja ekki öllum börnum á Íslandi jöfn tækifæri til góðrar heilsu með heilnæmum mat, þátttöku í tómstundum og til menntunar er skýlaust brot á mannréttindum þeirra. Sem gerir þau hornreka í íslensku samfélagi, í fátækt í boði ríkisstjórnarinnar,“ sagði Guðmundur Ingi.
Forsætisráðherra sagði ekki rétt að ekkert hefði verið gert í þessum málum. Ríkisstjórnin hefði gripið til markvissra aðgerða til að auka jöfnuð í samfélaginu.
„Nærtækast er að nefna breytingar á skattkerfi í þágu hinna tekjulægstu. Eflingu barnabótakerfisins sem spilar auðvitað beint saman við það sem háttvirtur þingmaður er að nefna. Aukin áhersla á félagslegt húsnæði. Ég ryfja það upp hér að af því húsnæði sem hefur verið byggt hérna á undanförnum árum er hátt í þriðjungur byggður vegan aðgerða stjórnvalda,“ sagði Katrín.
Breytingar á skattkerfinu og almannatryggingakerfinu hefðu allar miðað að því að bæta hag þeirra verst settu.

Helga Vala setti fjölda fátækra barna í samhengi við stöðu margra stórra fyrirtækja. Metár væri í fjármagnstekjum og metarðsemi hjá stórútgerðinni og bönkunum. Á tímum óðaverðbólgu þyrfti að sækja fjármagn þangað þar sem það væri að finna.
„Svo dæmi sé tekið greiddi eitt sjávarútvegsfyrirtæki fimm komma fjóra milljarða í arð til eigenda sinna, bara á síðasta ári. Ef við setjum þetta í samhengi er þetta sama tala og þetta sama fyrirtæki hefur greitt í veiðigjöld samtals frá árinu 2016, í sjö ár,“ sagði Helga Vala.

Forsætisráðherra sagði mennta- og barnamálaráðherra vinna að stefnumótun þar sem meðal annars verði tekið tillit til efnahagslegra þátta. Þá væri matvælaráðherra að endurskoða fyrirkomulag veiðigjalda.
„Krafan hlýtur að vera sú að þessi fyrirtæki sem eru að nýta okkar sameiginlegu auðlind skili sanngjörnum hluta til samfélagsins, sem á auðlindina,“ sagði Katrín Jakobsdóttir. Betra hefði verið ef flokkar á Alþingi hefðu náð saman um að koma ákvæði um þau mál í stjórnarskrá þegar þær breytingar hefðu verið ræddar á þingi.