Harry og Meghan verður ekki boðið að veifa til fjöldans af svölum Buckingham-hallar, eins og tíðkast við hátíðleg tilefni. Þá verða börn þeirra Archie og Lilibet ekki viðstödd krýninguna þar sem þau þykja of ung en Archie á afmæli sama dag og verður fjögurra ára.
„Þau verða hunsuð af mjög mörgum fjölskyldumeðlimum,“ hefur Daily Mail eftir fjölskylduvini. „Ég vona að þau verði látin sitja á Íslandi,“ segir annar um staðsetningu parsins í Westminster Abbey.
„Margir í fjölskyldunni vilja ekkert meira með þau hafa. Ef þau verða að hitta þau við krýninguna þá verður að hafa þau en þau vilja ekkert hitta þau umfram það.“

Harry og Meghan eru sögð hafa vakið mikla reiði hjá konungsfjölskyldunni með viðtölum sínum við fjölmiðla og ekki síður vegna uppljóstrana Harry í Spare, æviminningum prinsins.
Hjónin munu dvelja á heimili sínu á Bretlandseyjum, Frogmore Cottage, á meðan hátíðarhöldunum stendur en þau hafa verið beðin um að tæma húsið og hafa fengið nokkurra mánaða frest til að skipuleggja flutninga innbúsins til Kaliforníu.
Karl er sagður ætla að leyfa Andrew bróður sínum að búa í Frogmore Cottage.
Taka ber fréttaflutningi Daily Mail og bresku pressunnar með miklum fyrirvara en Harry hefur verið afar gagnrýninn á fjölmiðla í heimalandi sínu og þeir látið hann finna fyrir því í umfjöllun sinni.
Það hefur til að mynda komið fram að dætur Andrew eiga í góðu sambandi við Harry og Meghan en afstöðu þeirra er ekki getið í umfjöllun Daily Mail.
Harry og Meghan tilkynntu á dögunum að börn þeirra myndu nota titlana „prins“ og „prinsessa“ og hefur vefsíða konungsfjölskyldunnar verið uppfærð til að endurspegla það.
Harry hefur afsalað sér réttinum til að nota „hans konunglega hátign“ en börn hans munu geta notað það ef þau kjósa.