Miley gekk í gegnum mjög erfitt tímabil í kjölfar skilnaðar hennar við leikarann Liam Hemsworth árið 2019. Miley og Liam höfðu átt í slitróttu og stormasömu sambandi frá því að þau kynntust við tökur á myndinni The Last Song árið 2009. Þau gengu í hjónaband árið 2018 en höfðu sótt um skilnað tæpu ári síðar.
Miley var sökuð um það að hafa haldið framhjá Liam en hún þvertók fyrir þær ásakanir.
„Það kenndu henni allir um skilnaðinn og sögðu hana vera svo villta, en það var ekki sanngjarnt. Samband þeirra og hjónabandið var eitrað og hún var í mikilli ástarsorg,“ er haft eftir heimildarmanni People.
Finnst kominn tími til að hún segi sína hlið sögunnar
Nú hefur Miley gefið sér nokkur ár í að vinna í sjálfri sér og finnst henni loksins kominn tími til þess að heimurinn fái að heyra hennar hlið af sögunni. Nýlega gaf hún út plötuna Endless Summer Vacation en á henni er meðal annars að finna Flowers sem hefur verið eitt vinsælasta lag í heimi síðan það kom út.
Þó svo að Liam sé hvergi nefndur á nafn í laginu inniheldur bæði textinn og myndbandið fjölmargar vísbendingar þess að lagið fjalli um Liam og hve illa hann kom fram við Miley.
„Hún er ekki að reyna koma óorði á Liam en henni finnst hún samt hafa fullan rétt á því að segja sína sögu eftir að allir tættu hana í sig eftir skilnaðinn,“ segir heimildarmaður People.
Gengur vel og er að njóta lífsins
Liam hefur verið í sambandi með áströlsku fyrirsætunni Gabriellu Brooks frá árinu 2019. Sjálf er Miley búin að vera í sambandi með trommaranum Maxx Morado í rúmt ár og er hún sögð heilbrigðari og hamingjusamari en hún hefur verið í langan tíma.
„Hann [Maxx] hefur engan áhuga á því að verða frægur. Hann lætur lítið fyrir sér fara. Miley elskar þá eiginleika. Miley getur verið hún sjálf. Þau styðja hvort annað í því sem þau eru að gera. Miley er að njóta lífsins og hlutirnir ganga vel.“