Kotasæluís er nýtt æði á samfélagsmiðlinum TikTok. Í grunninn samanstendur ísinn af kotasælu, sem sett er í blandara eða er maukuð með töfrasprota, og sætuefni að eigin vali.
Út í þetta er svo hægt að bæta við kakói, berjum, hnetusmjöri eða súkkulaðibitum og getur hver og einn útfært ísinn eftir eigin smekk. Hér að neðan má finna nokkrar útfærslur.
Snickers ís
Innihaldsefni:
- Kotasæla
- Hunang eða annað sætuefni
- Möndlu- eða hnetusmjör
- Kanill
- Döðlur
- Súkkulaðidropar
Aðferð: Kotasæla og hunang eru maukuð saman með töfrasprota þar til blandan er orðin silkimjúk. Því næst er möndlusmjöri, kanil, döðlum og súkkulaðidropum bætt saman við. Hægt er að toppa blönduna með karamellusósu eða súkkulaðidropum áður en ísnum er skellt inn í frysti í nokkra klukkutíma.
Jarðarberjaís með kexi
Innihaldsefni:
- Kotasæla
- Jarðarber
- Hunang eða annað sætuefni
- Hafrakex
Aðferð: Kotasæla, hunang og frosin jarðarber eru sett í blandara þar til blandan er silkimjúk og kekkjalaus. Því næst er niðurskornum, ferskum jarðarberjum bætt út í blönduna ásamt hafrakexi. Blandan er sett í frysti í nokkra klukkutíma.
Nutellaís
Innihaldsefni:
- Kotasæla
- Kakó
- Stevía
- Heslihnetur
- Súkkulaði
Aðferð: Kotasæla, kakó og stevía eru sett í matvinnsluvél þar til blandan verður silkimjúk. Setjið botnfylli af heslihnetum í ílát og setjið svo ísblöndu yfir. Setjið því næst annað lag af heslihnetum og annað lag af ísblöndu. Hægt er að bræða súkkulaði og hella yfir í lokin. Frystið blönduna til þess að búa til ís en einnig er hægt að setja blönduna í kæli og búa þannig til gómsætan búðing.