Bókin, Úlfur og Ylfa – Ævintýradagurinn er skrifaður af þeim báðum og gefin út hjá Sölku en Auður Ýr Elísabetardóttir teiknar myndirnar sem prýða bókina.
Fagna fjölbreytileikanum
Báðar hafa þær Ingileif og María Rut verið framarlega í jafnréttisbaráttu hinsegin fólks á Íslandi en þær halda úti fræðsluvettvanginum Hinseginleikann. Bókin er sú fyrsta um Úlf og Ylfu sem lesendur eiga eftir að kynnast nánar í framtíðinni. Úlfur, önnur söguhetja bókarinnar, á tvær mömmur en mikilvægt er fyrir börn að geta speglað sig í sögunum sem lesnar eru fyrir þau og munu aðrar bækur um Úlf og Ylfu einnig fagna fjölbreytileikanum í allri sinni dýrð í skemmtilegum sögum fyrir hressa krakka.

„Eftir að hafa ítrekað rekið okkur á það að barnabækur gerðu ekki ráð fyrir okkar fjölskylduformi ákváðum við að okkur langaði að bæta úr því,“ segir Ingileif og heldur áfram.
„Það er ekki bara okkar fjölskylduform sem endurspeglast ekki í barnabókum, heldur einnig fjölbreytileiki fjölda barna þarna úti þegar kemur að kynhneigð, kynvitund, uppruna, útliti, áhugamálum og fjölskyldumynstri. Okkur langaði því að skrifa bækur sem búa til pláss fyrir öll börn til að vera nákvæmlega eins og þau eru.“
Ingileif og María hafa áður sent frá sér barnabókina Vertu þú! Litríkar sögur af fjölbreytileikanum sem fékk frábærar viðtökur hjá lesendum.