Hin 23 ára gamla Tasha var keppandi í áttundu seríu af Love Island og var jafnframt fyrsti heyrnarlausi keppandinn í þáttunum svo athygli vakti. Þar kynntist hún kærastanum sínum, fasteignasölumanninum Andrew Le Page.
Í umfjöllun breska götublaðsins The Sun kemur fram að Tasha hafi undanfarin ár verið ötull talsmaður heyrnarlausra í Bretlandi. Því hafi hún fengið boð í krýninguna en ljóst er að mesta framafólk Bretlands verður viðstatt krýninguna.
Ljóst er að hún var nokkuð hissa á boðinu enda ekki hverjum sem er boðið. Meðal þeirra stórstjarna sem munu mæta verða Beckham hjónin, bandaríska leikkonan Sandra Oh og Lionel Richie, svo fáeinir séu nefndir.

Tasha viðurkennir að hún sé haldin miklum félagskvíða og rekur það til þess hvernig fólk hegðar sér stundum í samskiptum við hana vegna þess að hún er heyrnarlaus. Tasha notar ígrætt heyrnartæki sem hún segir hafa breytt lífi sínu þó efasemdirnar ráði enn för.
„Ég efast ítrekað um sjálfa mig, hvort ég muni heyra í þeim sem talar við mig, hvað ef ég misskil? hvað ef ég verð dæmd út frá röddinni minni? Hvað ef einhver tekur úr mér heyrnartækið?“
