Skoðun

Skilur borgar­stjóri ekki rekstur Reykja­víkur­borgar?

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Ummæli Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um ársreikning borgarinnar, bæði í Silfrinu og í borgarstjórn, hafa vakið mikla furðu þeirra sem til þekkja. Borgarstjóri hefur sagt að stóran hluta hallans mætti rekja annars vegar til verðbólgunnar og stýrivaxtahækkana henni tengdum. Verðbreytingar hafi hækkað lán borgarinnar um sex milljarða. En á sama tíma jukust tekjur (aðallega skatttekjur) borgarsjóðs um tæpa 14 milljarða. Við þetta má bæta að vísitöluhækkun á lánum kemur ekki til greiðslu fyrr en síðar. Að sjálfsögðu þarf engin lán að taka til að standa undir verðbótum á lán. Lántaka borgarinnar skýrist því auðvitað af allt öðru.

Borgarstjóri er reyndar svo djarfur að hann telur fjárhagsstöðu borgarinnar miklu betri en stöðu ríkisins ef rétt er skilið. Ef hann ætti skilinn brottrekstur, ætti Bjarni Benediktsson það miklu fremur að hans mati!

Útlit er fyrir að tekjur verði um 24 milljarðar umfram útgjöld ríkissjóðs í ár að frátöldum vaxtatekjum- og gjöldum og því verði svonefndur frumjöfnuður jákvæður sem því nemur. Borgarsjóður Reykjavíkurborgar tekur lán til að standa undir rekstrargjöldum; til að geta borgað laun og önnur útgjöld.

Samkvæmt bráðabirgðauppgjörinu batnaði frumjöfnuður ríkissjóðs milli áranna 2021 og 2022. Hjá borginni versnar staðan jafnt og þétt, áætlanir reynast kolrangar og afkoman allt önnur en ætlað var. Hjá ríkinu standast áætlanir ekki heldur; en stóri munurinn er sá að staðan er þar miklu betri en áætlað hafi verið.

Skilur borgarstjórinn ekki tölurnar og samhengi þeirra? Hann er ekki alveg reynslulaus. Eða reynir hann að blekkja almenning? Ég veit hreinlega ekki hvort er verra.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins




Skoðun

Sjá meira


×