Á myndskeiðinu sem sýnt var í fréttum Stöðvar 2 sést rjúka úr jörðinni lengst vinstra megin, fyrst aðeins á einum stað en síðan lengist staðurinn sem rýkur upp úr. Lengi sést enginn eldur koma upp, aðeins rjúkandi lína, en svo gerist það að grjót og mosi þyrlast upp og það fer að sjást í eld.
Þetta eru sennilega einhverjar bestu myndir sem náðst hafa á Íslandi til þessa af því hvernig jarðeldur brýtur sér leið upp til yfirborðs. Svona byrjar sem sagt sprungugos.