Enski boltinn

Amrabat bíður eftir Man. Utd

Sindri Sverrisson skrifar
Sofyan Amrabat með boltann í úrslitaleik Sambandsdeildar Evrópu í vor, þar sem Fiorentina varð að sætta sig við tap gegn West Ham.
Sofyan Amrabat með boltann í úrslitaleik Sambandsdeildar Evrópu í vor, þar sem Fiorentina varð að sætta sig við tap gegn West Ham. Getty/Chris Brunskill

Marokkóski miðjumaðurinn Sofyan Amrabat hefur þegar samþykkt að ganga til liðs við Manchester United og þrátt fyrir gylliboð frá Sádi-Arabíu er Old Trafford sá áfangastaður sem hann þráir heitast. Enska félagið hefur þó ekki lagt fram neitt tilboð enn sem komið er.

Frá þessu greinir félagaskiptagúrúinn Fabrizio Romano á Twitter í dag þar sem hann hrekur fréttir sumra af ensku götublöðunum, sem sögðu mögulegt að Amrabat yrði áfram hjá Fiorentina á Ítalíu og að hann hefði sagt svo sjálfur eftir æfingaleik með liðinu gegn D-deildarliði Grosetto.

„Ég veit ekki hvort að ég fer… kannski verð ég um kyrrt hjá Fiorentina,“ átti Amrabat að hafa sagt, meðal annars samkvæmt Daily Mail og Metro, en Amrabat segir þessa tilvitnun einfaldlega tilbúning.

Romano, sem veit meira en flestir um félagaskiptin í fótboltanum, segir að Amrabat sé ekki í nokkrum vafa og vilji fara til United. 

Romano segir að United hafi fyrst viljað ganga frá kaupunum á framherjanum Rasmusi Höjlund, sem nú eru frágengin, og auk þess bíði félagið nú eftir því að sala heppnist á Fred eða Donny van de Beek. Þegar það gangi eftir muni Fiorentina fá tilboð.

Amrabat, sem er 26 ára, sló í gegn á HM í Katar í vetur og átti stóran þátt í því að liðið endaði afar óvænt í 4. sæti mótsins. Hann hefur verið leikmaður Fiorentina frá árinu 2020 en lék áður í Belgíu og Hollandi þar sem hann er fæddur og uppalinn, en hann á marokkóska foreldra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×