Enski boltinn

Stjóri Tottenham pollrólegur yfir framtíð Kane

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Harry og Ange.
Harry og Ange. vísir/Getty

Ange Postecoglou, nýr stjóri Tottenham, kveðst ekki eyða miklum tíma í að velta fyrir sér framtíð stjörnuframherjans síns, Harry Kane.

Ange var spurður út í stöðuna hjá Harry Kane í kjölfar síðasta æfingaleiks liðsins sem fram fór í gær þegar Tottenham vann 5-1 sigur á Shakhtar en enski framherjinn hefur verið orðaður sterklega við Bayern Munchen undanfarna daga og vikur.

„Við vitum að það er bara ein dagsetning sem skiptir máli og það er þegar glugginn lokar. Þangað til er ég í reglulegum samskiptum við Harry og við félagið. Ég er búinn að biðja þá að láta mig vita ef eitthvað breytist,“ sagði Ange, pollrólegur.

„Ég þarf ekkert að vita um hverjir eru að koma eða að fara þangað til það er búið að gerast. Ég vil bara einbeita mér að því sem er fyrir framan mig. Ég er að setja saman lið hérna og get ekki verið að bíða eftir einhverjum ákvörðunum hér og þar.“

Kane bar fyrirliðaband Tottenham í leiknum og skoraði fjögur mörk.

„Þið sáuð í dag að Harry er klárlega með okkur í því sem við erum að gera og við höldum áfram með það þangað til eitthvað breytist,“ sagði Ange.

Forráðamenn Bayern Munchen, Uli Höness og Herbert Hainer, hafa ítrekað talað um Kane opinberlega í allt sumar og virðist Ange ekki missa svefn yfir því.

„Það er þeirra mál. Ef þeir vilja vinna hlutina svona er það ekki mitt að dæma. Það truflar mig ekki. Ég sit ekki hérna og velti því fyrir mér hvað önnur félög eru að gera. Staðreyndin er sú að hann er samningsbundinn okkar félagi,“ sagði Ange, ákveðinn og skaut létt á forráðamenn Bayern að endingu.

„Ég myndi klárlega ekki tala um leikmenn sem eru samningsbundnir öðrum félögum en ég er ekki hjá Bayern og þeir geta haft þetta eins og þeir vilja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×