Enski boltinn

HM-hetja Argentínu­manna kominn til Notting­ham For­est

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gonzalo Montiel varð heimsmeistari með Argentínu í desember í fyrra.
Gonzalo Montiel varð heimsmeistari með Argentínu í desember í fyrra. Getty/Visionhaus

Knattspyrnumaðurinn Gonzalo Montiel var hetja síns liðs oftar en einu sinni á síðasta tímabili og nú er þessi argentínski landsliðsmaður kominn í ensku úrvalsdeildina.

Nottingham Forest fær nefnilega Montiel á láni út tímabilið frá spænska liðinu Sevilla.

En aftur að hetjudáðum Montiel. Hann tryggði nefnilega bæði Argentínu heimsmeistaratitilinn og Sevilla sigur í Evrópudeildinni á síðustu leiktíð.

Í báðum úrslitaleikjunum var það Montiel sem steig fram og skoraði úr síðustu vítaspyrnunni, vítinu sem vann leikinn fyrir Argentínu 18. desember 2022 og Sevilla 31. maí 2023.

Þessi 26 ára argentínski landsliðsmaður spilar sem hægri bakvörður en hann hefur spilað með Sevilla frá árinu 2021 þegar hann kom þangað frá River Plate í Argentínu.

Montiel hefur spilað 23 landsleiki fyrir Argentínu og unnið þrjá titla, heimsmeistaratitilinn 2022, Suðurameríkutitilinn 2021 og Finalissima 2022.

Nottingham Forest fær kappann á láni en er einnig með forkaupsrétt á honum eftir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×