Í aðgerðinni var lagt hald á meira en 25 tonn af álum, stærstur hluti álanna var á Spáni, eða um 18 tonn.
Lögregluaðgerðir í 32 löndum
256 manns voru handteknir, þar af 30 á Spáni og telur lögreglan að henni hafi tekist að uppræta tvo glæpahringi sem helguðu sig álasmygli, báðir með höfuðstöðvar á Spáni, í Astúrías og í San Sebastian á Norður-Spáni. Alls teygðu aðgerðir Europol sig til 32ja landa, en aðalumsvifin voru á Spáni, í Portúgal og Frakklandi.
Kílóið kostar 1,3 milljónir króna
Til stóð að smygla álunum til Kína, en þar fást allt að 9.000 evrum fyrir kílóið af evrópska álnum, andvirði um 1.300.000 króna. Því lætur nærri að andvirði álanna sem voru gerðir upptækir í aðgerðinni hafi numið að andvirði rúmlega 30 milljarða íslenskra króna.
Álarnir sem fundust voru ýmist lifandi eða frystir. Þeim er smyglað í sérútbúnum ferðatöskum þar sem hægt er að halda hinum lifandi álum á lífi með súrefnisgjöf í allt að 42 klukkustundir.
Bannað að flytja ál út fyrir mæri Evrópusambandsins
Evrópski állinn er talinn vera í hættu á Spáni og eru veiðar á honum bannaðar víða á Spáni, frístundaveiðar eru bannaðar og veiðar í atvinnuskyni eru háðar miklum takmörkunum. Þá er bannað að flytja álinn út fyrir mæri Evrópusambandsins.
Í tilkynningu spænsku lögreglunnar segir að eitt af viðkvæmari og mikilvægustu verkefnum lögregluaðgerðarinnar hafi verið að koma hinum lifandi, fullvöxnu álum aftur út í náttúruna, en með aðstoð ýmissa náttúruverndarsamtaka var þeim sleppt í spænskar ár, allt frá suðri til norðurs.