Enski boltinn

Pabbi Ramsdales skaut fast á Carragher: „Til skammar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jamie Carragher snerti viðkvæma taug hjá föður Aarons Ramsdale.
Jamie Carragher snerti viðkvæma taug hjá föður Aarons Ramsdale. vísir/getty

Faðir Aarons Ramsdale, markvarðar Arsenal, var ekki sáttur við ummæli Jamies Carragher, sparkspekings á Sky Sports, um son sinn.

Ramsdale hefur misst sæti sitt í byrjunarliði Arsenal til Davids Raya. Spánverjinn hefur byrjað síðustu þrjá leiki Arsenal og stóð milli stanganna þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Tottenham í Norður-Lundúnaslagnum í gær.

Í kjölfar þess að Raya varði frábærlega frá Brennan Johnson í fyrri hálfleik beindust myndavélarnar að Ramsdale sem klappaði fyrir spænska markverðinum og brosti.

Carragher gerði viðbrögð Ramsdales að umtalsefni eftir leikinn og gerði grín að þeim.

„Mér fannst þetta vera eins og á Óskarsverðlaununum þegar einhver vinnur ekki og klappar fyrir og brosir fyrir sigurvegaranum. Ég hló þegar ég sá þetta. Hann var í alvöru miður sín yfir þessu,“ sagði Carragher.

Þessi ummæli gömlu Liverpool-hetjunnar fóru ekki vel í föður Ramsdales, Nick, sem lét Carragher heyra það á Twitter.

„Þú ert til skammar!! Sýndu smá klassa!! Strákurinn minn gerði það,“ skrifaði pabbinn.

Fyrir viðureignina gegn Spurs sagðist Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, hafa ákveðið að nota Raya vegna þess hvernig hann vildi spila í leiknum. Arteta hefur áður sagt að hann ætli að skipta leikjum á milli Rayas og Ramsdales.

Arsenal er í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fjórtán stig eftir sex umferðir.


Tengdar fréttir

„Við elskum allir Jorginho“

Mikel Arteta var ekki tilbúinn að gagnrýna Jorginho vegna mistaka hans sem leiddu til jöfnunarmarks Tottenham gegn Arsenal í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×