Körfubolti

Berglind: Skemmtilegt að sjá hvernig deildin rúllar af stað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valur og Keflavík voru í lokaúrslitum í fyrra og eru líklegt til að keppa um titlana í ár líka.
Valur og Keflavík voru í lokaúrslitum í fyrra og eru líklegt til að keppa um titlana í ár líka. Vísir/Hulda Margrét

Berglind Gunnarsdóttir verður áfram sérfræðingur í Subway Körfuboltakvöldi kvenna og hún er spennt fyrir nýrri tíu liða deild í vetur.

KKÍ bætti tveimur liðum við deildina en henni verður síðan skipti upp eftir að allir hafa spilað við alla heima og úti.

Fjórir leikir fóru fram í Subway deild kvenna í gærkvöldi og fyrsta umferðin klárast síðan með leik Njarðvíkur og Keflavíkur í kvöld.

„Ég held að fólk megi búast við ansi skemmtilegri deild. Þetta er auðvitað svolítið öðruvísi skipulag núna með tíu liða deild og það verða margir spennandi leikir en það verða líka ójafnari leikir,“ sagði Berglind í samtali við Stefán Árna Pálsson.

„Deildin skiptist síðan upp í tvær deildir eftir áramót og þá verða allir leikir svolítið spennandi. Þetta er bara breyting sem var ákveðið að gera og ég held að það verði skemmtilegt að sjá hvernig deildin rúllar af stað,“ sagði Berglind.

En hvaða lið eru sterkust í deildinni í ár?

„Svona á blaðinu fyrir fram myndi ég segja að Keflavíkur og Valur væru sterkustu liðin. Keflavík er svo til með sama mannskap og í fyrra nema að þær bæta við sig Thelma Dís Ágústsdóttur sem er að koma heim frá Bandaríkjunum. Hún er leikmaður sem var valin mikilvægust áður en hún fór út fyrir fimm ár og varð þá Íslandsmeistari“ sagði Berglind.

„Hún er búinn að vera í flottu prógrammi og það verður spennandi að sjá hana í deildinni. Eins lítur Valsliðið mjög vel út þrátt fyrir að hafa tapað fyrir Haukum í Meistarakeppninni. Þær eru komnar með nýjan bandarískan leikmann sem mér skilst að líti mjög vel út á æfingum“ sagði Bergling en það má sjá viðtalið við hana hér fyrir neðan.

Klippa: Berglind býst við skemmtilegri deild

Leikur Njarðvíkur og Keflavíkur verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og strax á eftir verður Subway Körfuboltakvöld á dagskrá á sömu stöð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×