Varadkar segir bresk stjórnvöld hafa gerst sek um einangrunarhyggju með útgöngu sinni úr Evrópusambandinu, lækkun framlaga til þróunarmála og vegna hugmynda stjórnvalda þar í landi um að segja skilið við mannréttindasáttamála Evrópu til að stemma stigu við komu flóttafólks yfir Ermasund.
Varadkar hitti í gær Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands á fundi í Granada á Spáni þar sem leiðtogar 47 Evrópuríkja hittast á nýjum vettvangi Evrópulanda sem stofnaður var eftir innrás Rússa í Úkraínu.
Þar var hann sérstaklega spurður hvað sér finnist um hugmyndir Suella Braverman, innanríkisráðherra Bretlands, um að stjórnvöld segi skilið við skuldbindingar sínar gagnvart mannréttindadómstóli Evrópu. Hún segist ekki viss um hvort hann þjóni tilgangi sínum á tímum líkt og nú þar sem ólöglegir innflytjendur flykkist til Bretlands, yfir Ermasund, að hennar sögn.
„Ég þarf að vera hreinskilinn. Það vekur hjá mér ugg að sjá Bretland einangra sig frá heiminum - hvort sem það er þegar það lækkar framlög sín til þróunarmála, eða hvort það er þegar það er þegar það yfirgefur Evrópusambandið og núna þetta tal um að segja skilið við mannréttindasáttmálann. Þetta er ekki það Bretland sem ég þekki,“ segir írski forsætisráðherrann.
Varadkar sagði í gær í aðdraganda fundarins að hann hyggðist ræða þessi mál við breska starfsbróður sinn. Sunak fundaði einnig með Giorgiu Meloni, forsætisráðherra Ítalíu.
„Bretland sem ég elska og dáist að er land Magna Carta, stjórnarskrárvarinna réttinda, landið sem átti upptökin að þingbundnu lýðræði og landið sem aðstoðaði við gerð evrópska mannréttindasáttmálans.“